Minning - Svanhildur Skúladóttir
Svanhildur Skúladóttir lést nýlega eftir erfið veikindi en hún hafði helgað sig kennarastarfinu og var hjá okkur í Myllubakkaskóla í 33 ár. Það er erfitt að tjá með orðum hversu mikil áhrif hún hefur haft á skólann, á alla sem unnu með henni eða á allan þann fjölda nemenda sem hún kenndi í gegnum árin. Hún skilur eftir sig margar minningar hjá ótrúlega mörgum.
Þeir sem fengu að kynnast henni fengu fljótt að vita að hún var sterkur og stór karakter, með skoðanir á öllu sem skipti hana máli eða sem varðaði skólann hennar. Hún hefði örugglega látið okkur heyra það að rauði liturinn á skólanum ætti að vera meira áberandi í nýju hönnuninni enda var rauður litur hennar uppáhald. Sá litur kom fram bæði í klæðnaði á hátíðisdögum og í skreytingum á stofunni hennar. Margir muna eftir rauða jólakjólnum hennar Svanhildar.
Svanildur lagði sig fram um að taka þátt í öllum viðburðum innan skólans. Bauð sig fram og vildi taka þátt í skipulaginu, hvort sem það var að skreyta kaffistofuna, fyrir árshátíð, páska og allt annað. Henni fannst gaman að hafa gaman og vildi ekki missa af neinni skemmtun.
Svanhildur var alltaf til staðar fyrir nemendur sína, hvort sem það var að veita þeim ást og kærleika, drífa áfram og hvetja eða einfaldlega að styðja þá með því að kaupa af þeim alls kyns nammi og aðra hluti í fjáröflun fyrir tómstundir sínar. Í starfi var metnaður og dugnaður eftirtektarverður, það lærðu allir að lesa hjá Svanhildi, hún vildi helst hlusta á alla nemendur sína lesa daglega.
Svanhildur lifði fyrir Hörð sinn, dætur og barnabörn, kisurnar sínar og Myllufjölskylduna. Síðustu daga hefur starfsfólk rifjað upp skemmtilegar minningar og kynni sín af henni. Þegar gengið var inn í stofuna kom fljótlega í ljós hverju hún hafði dálæti á, en áberandi voru blómin hennar (sem hún annað hvort tók með sér heim í fríum eða mætti í skólann og vökvaði þau allt sumarið), Bangsímon bangsar sem voru í miklu uppáhaldi, en umfram allt kærleikur, söngur og gleði.
Hvíl í friði Svanhildur og vittu að þú munt lifa áfram í Mylluhjörtum okkar.
Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli
Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.



