Verndarsvæði í byggð
Nemendur í 8. bekk í Myllubakkaskóla tóku þátt í spennandi og skemmtilegu verkefni á vegum Reykjanesbæjar sem heitir "Verndarsvæði í byggð" og hefur undirheitið "Gamli bærinn minn - nýi bærinn minn - framtíðin er í mínum höndum". Verið er að skoða hvað á að gera við Keflavíkurtúnið sem er grassvæðið á móti Duus-húsum. Almenningi hefur undanfarið gefist kostur á að segja sína skoðun á þar til gerðu plaggi sem er á sýningu í Gryfjunni. Stjórnendur verkefnisins vildu heyra raddir nemenda og var leitað til eins árgangs úr hverjum skóla í Keflavík (Myllubakkaskóli, Holtaskóli og Heiðarskóli). Í upphafi fengu nemendur kynningu á verkefninu hjá Helga Biering þjóðfræðingi. Síðan fór í gang hugmyndavinna og þurfti hver bekkur að vera klár með eina hugmynd í lok mánaðar. Allir hittust svo í Bíósal Duus-húsa og kynntu tillögur sínar fyrir bæjarstjóra og öðrum ráðamönnum. Flestir vildu halda í fornminjarnar sem eru á túninu og vera með einhvers konar útivistarsvæði í kring.
Þetta var skemmtilegt, öðruvísi og hvetjandi verkefni sem allir voru spenntir fyrir og gaman þegar krakkar fá tækifæri til að koma sínu sjónarhorni á framfæri. Nemendur Myllubakkaskóla stóðu sig með prýði og voru skólanum til sóma.
Fleiri myndir á myndasvæði.
Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.