Skemmtilegt póstkortaverkefni
Freydís Kneif kennir valáfangann Erlend samskipti sem er fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Nemendurnir í áfanganum auglýstu á facebook eftir póstkortum og lofuðu að svara öllum til baka sem myndu senda póstkort til skólans. Mynd af hópnum var sett á facebook 27. ágúst sl. og var henni deilt um allan heim. Fyrstu póstkortin bárust 3. september og hafa komið í stríðum straumi síðan. Kortin urðu töluvert fleiri en hópurinn áætlaði í upphafi! Samtals hafa borist um 570 kort frá 60 löndum úr öllum heimsálfunum. Hópurinn hefur haft nóg að gera við að skrifa til baka og hefur gaman af. Það er þó ljóst að mikið verk er fyrir höndum og hefur verið leitað eftir aðstoð frá fleiri nemendum skólans við verkefnið. Verkefnið vakti athygli fréttamanns Víkurfrétta og má sjá umfjöllun á vefsjónvarpi Víkurfrétta.
Margir velviljarar hafa gefið skólanum póstkort til að skrifa á eða styrkt okkur til að kaupa frímerki. Ef þið viljið leggja hópnum lið þá þiggjum við það með þökkum. Hægt er að senda nemendur með kort eða frímerki og láta umsjónarkennara fá eða afhenda Lóu ritara.
Hressir nemendur með hluta af póstkortunum.
Fleiri myndir eru í myndasafni.
Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.