Góður afi er gulli betri
Í upphafi nýs árs fékk 10. bekkur AV í Myllubakkaskóla kærkomna heimsókn. Afi eins nemandans, Skúli Hermannsson, kom færandi hendi með kassa undir farsíma. Þetta er vandaður kjörgripur úr gegnheilli hnotu og rúmar 30 síma í einu. Hugmyndin er að nemendur setji símana sína í hann á meðan þeir eru í kennslustund en geti svo nálgast þá þegar þeir fara í frímínútur. Þannig geta þeir hegðað sér samkvæmt einni af væntingum skólans sem segir að nemendur noti síma á ábyrgan hátt.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Skúli er nemendum innan handar. Fyrir jólin gaf hann þeim vandað skurðarbretti sem hann hafði unnið og það endaði sem einn af vinningunum i jólalukkuleik tíundu bekkinga.
Þegar Stebbi húsvörður var búinn að festa gripinn upp á vegg í umsjónarstofu bekkjarins var ákveðið að slá upp veislu og bjóða afa í heitt súkkulaði og köku.
Þegar Skúla var þakkað fyrir sagði hann að Ámundínus Örn Öfjörð hefði lagt sér lið við verkið.
![]() |
Skúli með Elmari barnabarni sínu. |
Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.