• Skrifstofan er opin frá:

  Mán - fim: 7:45 - 15:30
  Fös: 7:45 - 14:00

 • Sími á skrifstofu

  420 1450

Skólanámskrá

 • Inngangur
 • Saga skólans
 • Uppeldis- og kennslufræðileg stefna skólans
 • Menntun
 • Námsmat
 • Mat á skólastarfi
 • Móttaka nemenda
 • Framkoma og hegðun
 • Jafnrétti og mannréttindi
 • Tengsl við grenndarsamfélagið
 • Öryggis- og slysavarnir
 • Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi
 • Áfengis- og fíknivarnir
 • Viðbragðsáætlun vegna hættuástands
 • Áfallaáætlun

Inngangur

Skólanámskrá er nánari útfærsla á ákvæðum aðalnámskrár þar sem sérkennum Myllubakkaskóla eru gerð skil. Allir hagsmunaaðilar skólans koma að mótum skólanámskrárinnar, nemendur, kennarar, foreldrar og fulltrúar grenndarsamfélagsins. Skólanámskrá Myllubakkaskóla er gefin út í tveimur hlutum. Annars vegar er það þetta rit sem er almennur hluti og síðan birtist starfsáætlun í tveimur ritum. Kennsluáætlanir tilheyra starfsáætlun og birtast í bekkjarnámskrám í sérstöku riti á heimasíðu skólans. Starfsáætlun byggir á upplýsingum sem eru breytilegar frá ári til árs en almennur hluti, sem er þetta rit, byggir á almennri stefnumörkun skólans.
 
Í Myllubakkaskóla er stöðugt verið að þróa skólastarfið til betri vegar og leitast er við að nemendur upplifi gleði í hjarta, séu ábyrgir, nái hámarks árangri og beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Skólinn er nemendamiðaður og gerir kröfur til nemenda, starfsfólks og foreldra. Leitast er við að bjóða ögrandi verkefni og veita leiðsögn sem hvetur til náms. Hagsmunir nemenda eru ávallt hafðir að leiðarljósi og velferð þeirra sett í forgrunn í öllu skólastarfinu.
Markmið grunnskólagöngu nemenda er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi ásamt því að búa nemendur undir frekara nám og þátttöku í atvinnulífinu. Reykjanesbær hefur birt menntastefnu sem ber heitið Með opnum hug og gleði í hjarta og er meginmarkmið hennar að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líð vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta. Menntastefnan er birt á heimasíðu skólans og síðu Reykjanesbæjar.

Saga skólans

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

Uppeldis- og kennslufræðileg stefna skólans

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

Menntun

Þessum texta geta notendur breytt eftir þörf

Námsmat

Megintilgangur námsmats samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er að leiðbeina nemendum um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum námsins. Námsmat er einn af föstum þáttum skólastarfsins, órjúfanlegt frá námi og kennslu og miðar að því að afla sem öruggastar vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaka nemanda eða hópum gengur að ná settum markmiðum. Skólaár Myllubakkaskóla er eitt tímabil og í skólanum á sér stað bæði formlegt og óformlegt námsmat allt skólaárið. Lögð er áhersla á leiðsagnarmat þ.e. að nemendur geti bætt námsárangur sinn og skilji til hvers er ætlast af þeim. Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að nemendur þurfi að öðlast vissa hæfni til að geta nýtt þekkingu sína og leikni. Mat á hæfni byggir því ekki eingöngu á mati á þekkingu nemandans eða leikni til að framkvæma, heldur getu hans til að skipuleggja, útskýra og nota hugtök um efni viðkomandi námsgreinar eða námssviðs.
 
Nemendur fá vitnisburðarblað að vori. Tekið er tillit til mismunandi þroska, getu og bakgrunns nemenda við mat og markmiðssetningu. Mat á frammistöðu nemenda birtist á Mentor allt skólaárið og eru foreldrar hvattir til að fylgjast vel með námsmati barna sinna. Námsmat er samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla unnið eftir hæfniviðmiðum og mat á verkefnum og könnunum miðast við hæfniviðmiðin. Námsmat á verkefnum og könnunum er gefið í bókstöfum þ.e. A, B+, B, C+, C og D.
 
Námsmat er ekki eins hjá öllum námshópum og einstaklingum. Í umsagnarreit á vitnisburðarblaði kemur fram ef um frávik er að ræða. Námsgrein er einnig merkt með stjörnu eða plús ef nemandi víkur frá námsmarkmiðum árgangsins. Stjörnumerktur vitnisburður merkir að nemandi á erfitt með að tileinka sér námsmarkið árgangsins og er þar af leiðandi í aðlöguðu námsefni. Plúsmerktur vitnisburður merkir að nemandi hefur náð markmiðum árgangsins og er kominn lengra í námi.
 
Nemendur safna verkefnum í sýnimöppu (portfolio) á skólagöngu sinni. Miðað er við að á hverju skólaári velja nemendur eitt eða fleiri verkefni til að bæta í möppuna. Mappan er geymd í skólanum þar til skólagöngu lýkur og nemendur fá hana afhenta við útskrift úr skólanum. 

Mat á lykilhæfni
Lykilhæfni er sú hæfni sem snýr að nemandanum sjálfum og er ætlað að stuðla að alhliða þroska hans.
Mat á lykilhæfni fer fram í janúar í öllum árgöngum og er rætt á samskiptadegi.
 
Lykilhæfnin skiptist í fimm þætti sem lagðir eru til í aðalnámskrá. Allir þættirnir fimm eru jafn mikilvægir en farið er misjafnlega djúpt í þá eftir aldri nemenda.
 
Lykilhæfniþættirnir fimm eru:
1. Tjáning og miðlun. Hæfni nemenda til að tjá hugsanir sínar, tilfinningar og skoðanir munnlega, skriflega og á annan hátt. Hæfni til að miðla þekkingu og leikni sinni og flytja mál sitt skýrt og áheyrilega og taka þátt í samræðum og rökræðum.
2. Skapandi og gagnrýnin hugsun. Skapandi hugsun og frumkvæði í efnistökum og úrvinnslu. Hæfni nemanda til að nota þekkingu og leikni, draga ályktanir, áræðni til að leita nýrra lausna og beita gagnrýnni hugsun og röksemdafærslu.
3. Sjálfstæði og samvinna. Hæfni nemanda til að vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
4. Nýting miðla og upplýsinga. Hæfni nemanda til að nýta margvíslega miðla í þekkingarleit, úrvinnslu og miðlun og nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt.
5. Ábyrgð og mat á eigin námi. Hæfni nemanda til að bera ábyrgð á eigin námi og leggja mat á eigin vinnubrögð og frammistöðu.
 
Skýringar á bókstöfum í lykilhæfni eru:
A = Framúrskarandi hæfni.
B = Góð hæfni.
C = Sæmileg hæfni.
D = Hæfni ábótavant.
 
Lykilhæfniþættirnir eru skilgreindir á hverju skólastigi fyrir sig og þannig gerðir aðgengilegir fyrir foreldra og nemendur. Lykilhæfnin felst ekki einungis í frammistöðu í tímum heldur einnig í því hvernig nemendur standa sig í skólanum almennt, í félagslífi, frímínútum o.s.frv.
 
Yngsta stig 1.- 4. bekkur
1. Tjáning og miðlun. Tekur þátt í samræðum. Hlustar á aðra. Tjáir sig í umræðum.
2. Skapandi og gagnrýnin hugsun. Sýnir frumkvæði. Er skapandi við vinnu og lausn verkefna.
3. Sjálfstæði og samvinna. Vinnur vel með öðrum. Er virkur í hópastarfi og leggur sitt af mörkum. Fer eftir viðeigandi fyrirmælum.
4. Nýting miðla og upplýsinga. Aflar sér upplýsinga á fjölbreytta vegu. Miðlar upplýsingum til annarra.
5. Ábyrgð og mat á eigin námi. Fylgir fyrirmælum. Leggur mat á vinnu sína. Nýtir tíma sinn vel til vinnu.
 
Miðstig 5. – 7. bekkur
1. Tjáning og miðlun. Tekur þátt í samræðum. Hlustar á aðra. Tjáir skoðanir sínar munnlega, skriflega eða á annan hátt.
2. Skapandi og gagnrýnin hugsun. Sýnir frumkvæði. Beitir gagnrýnni hugsun. Er skapandi við vinnu og lausn verkefna.
3. Sjálfstæði og samvinna. Leitar sjálfstæðra lausna í vinnu sinni. Sýnir kurteisi í samskiptum. Leggur sitt af mörkum í hópastarfi. Fylgir fyrirmælum.
4. Nýting miðla og upplýsinga. Miðlar upplýsingum til annarra. Nýtir mismunandi miðla til upplýsingaöflunar. Vinnur vel og á gagnrýninn hátt úr upplýsingum.
5. Ábyrgð og mat á eigin námi. Setur sér markmið í námi. Metur stöðu sína raunhæft í námi. Nýtir tíma sinn vel.
 
 
 
Elsta stig 8. – 10. bekkur
1. Tjáning og miðlun. Hlustar á aðra. Tjáir skoðanir sínar skilmerkilega. Færir rök fyrir máli sínu.
2. Skapandi og gagnrýnin hugsun. Sýnir frumkvæði. Beitir gagnrýnni hugsun við vinnu og lausn verkefna. Er skapandi við vinnu og lausn verkefna.
3. Sjálfstæði og samvinna. Leitar sjálfstæðra lausna í vinnu sinni. Sýnir kurteisi og jákvæðni í samskiptum. Leggur sitt af mörkum í samstarfi. Fylgir fyrirmælum.
4. Nýting miðla og upplýsinga. Nýtir mismunandi miðla til upplýsingaöflunar. Vinnur vel og á gagnrýninn hátt úr upplýsingum og miðlar þeim.
5. Ábyrgð og mat á eigin námi. Setur sér markmið í námi. Metur stöðu sína raunhæft í námi. Nýtir tíma sinn vel.

Mat á skólastarfi

Mat á skólastarfi
 
Mat á skólastarfi er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða mat sem skólar framkvæma sjálfir, innra mat og hins vegar er um að ræða mat sem utanaðkomandi aðili vinnur á vegum sveitarfélags, ráðuneytis mennta- og menningarmála eða annarra aðila, ytra mat.
 
Innra mat á að vera samofið daglegu starfi skóla, efla þekkingu, hæfni og faglega ígrundun á starfinu og auka vitund starfsfólks um ábyrgð. Við innra mat fer fram greining á gögnum um skólastarfið þar sem mat er lagt á hversu vel tekst að ná þeim gæðum og þeim árangri sem stefnt er að út frá fyrir fram ákveðnum viðmiðum. Lýðræðisleg viðbrögð eru viðhöfð við innra mat þar sem tekið er tillit til sjónarmiða þeirra sem koma að skólastarfinu til að stuðla að auknum gæðum í starfinu. Niðurstöður skal nýta til umbóta í skólastarfi að höfðu samráði við skólaráð.
 
Skipulag innra mats í Myllubakkaskóla byggir á grunnskólalögum og aðalnámskrá grunnskóla.
 
Samkvæmt grunnskólalögum er markmið mats og eftirlits með gæðum starfs í grunnskólum að:
·      veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemenda,
·      tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla,
·      auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum,
·      tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga  rétt á samkvæmt lögum (lög um grunnskóla nr. 91, 2008).
Árlega er gerð sjálfsmatsskýrsla sem birt er á heimasíðu skólans. Nánari útfærslu á mati á skólastarfi má finna í starfsáætlun skólans.

Móttaka nemenda


Skólabyrjun 1. bekkjar 
Nemendur skólahópa á lokaári leikskóla koma í heimsóknir í skólann nokkrum sinnum yfir veturinn ásamt leikskólakennurum. Foreldrum væntanlegra nemenda í fyrsta bekk er boðið á fund að vori/hausti þar sem skólastjórnendur kynna skólastarfið og sýna skólann. Nemendur mæta síðan til viðtals við umsjónarkennara með foreldrum á skólasetningardegi Myllubakkaskóla. Daginn eftir mæta foreldrar ásamt barni sínu samkvæmt stundaskrá á sal þar sem skólasetning fyrir fyrsta bekk fer fram við stutta athöfn og í kjölfarið hefst skólaganga nemenda.
Móttaka nemenda eftir að skólastarf er hafið
Skólastjórnandi boðar nemandann og forráðamenn hans í viðtal, sýnir þeim skólahúsnæðið og kynnir fyrir þeim umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa ef um barn með sérþarfir er að ræða. Nemandinn fær stundaskrá og aðrar upplýsingar um skólann. Starfsmenn skólans ásamt skólahjúkrunarfræðingi fá rafpóst um að nýr nemandi sé byrjaður í skólanum. Nemandinn hefur skólastarf daginn eftir. Umsjónarkennari sér um að nýr nemandi fái tilsjónarmann úr hópi bekkjarfélaga sem aðstoðar hann fyrstu vikurnar. Í lok fyrsta skóladags ræðir umsjónarkennari við nýja nemandann um hvernig fyrsti dagurinn hafi gengið. Umsjónarkennari aflar sér upplýsinga um nýja nemandann frá foreldrum og/eða þeim skóla sem barnið sótti áður. Umsjónarkennari hefur samband heim til nemanda eftir fyrstu vikuna ef foreldrar hafa ekki haft samband og athugar hvernig gengur.
 
Gátlisti
ü Fara yfir reglur um útiskó
ü Fatahengi
ü Matsalur (röðin, númerakerfið, sætin, frágangur eftir mat)
ü Nesti
ü Frímínútur
ü Útskýra hvar farið er í íþróttir og sund
ü Helstu kennslustofur
ü Kynna verkefnastjóra ÍSAT
ü Hitta skrifstofustjóra og námsráðgjafa
ü Mentor
 
Fjölþjóðaver
Við Myllubakkaskóla er fjölþjóðaver þar sem kennsla nemenda með annað móðurmál en íslensku fer fram. Nemendur tilheyra allir almennum bekk og hafa sinn umsjónarkennara en fara í verið til að öðlast meiri orðaforða og færni í íslensku. Þetta getur átt við börn af erlendum uppruna eða íslensk börn sem dvalið hafa í útlöndum þorra ævi sinnar.
Kennsla í íslensku sem annað tungumál er fjölbreytt og samhliða íslenskunáminu er menningarfærni kennd ásamt því að þróa þekkingargrunn, örva námsgetu og stuðla að vellíðan nemenda.
Í aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið 2013 segir m.a. að hæfni í íslensku sé meginforsenda þess að nemendur verði virkir þátttakendur í samfélagi lýðræðis og jafnréttis og geti lagt stund á almennt nám í íslenskum skólum. Hæfniviðmið eru sett fram í þremur flokkum, þ.e. lestri, bókmenntum og ritun.
Skipulag fjölþjóðavers: Starfsmenn fjölþjóðavers vinna stundatöflu fyrir nemendur í fjölþjóðaveri í samstarfi við umsjónarkennara og deildarstjóra. Nemandi fylgir sínum bekk eins og kostur er og kennsla tekur mið að þörfum hvers og eins.
Móttökuferli og forvinna skólans fyrir móttökuviðtal

·      Umsjónarkennari er valinn
·      Ákveðið er hver á að sjá um leiðsögn um skólann fyrir nemendur og foreldra hans
·      Túlkur er pantaður ef þörf er á því
·      Umsjónarkennari og starfsmaður fjölþjóðavers boða nemanda og forráðamenn í móttökuviðtal
·      Innritunarblað, helst á móðurmáli nemandans tekið til
Móttökuviðtal

Farið er yfir innritunarblað og upplýsinga er aflað um nemandann með stöðumati fyrir nemendur af erlendum uppruna.

Kynna þarf:

·      Starfsemi skólans (húsnæði, kennara, mötuneyti o.fl.)

·      Samstarf heimilis og skóla (Mentor, samskiptabók, foreldrafélag o.fl.)

·      Símanúmer skólans, heimasíðu og Facebook síðu skólans

·      Nesti/matartíma, íþróttaföt, sundföt

·      Hvernig á að tilkynna forföll og biðja um leyfi

·      Hvert á að snúa sér ef vandamál koma upp

·      Fjölþjóðaver

·      Fyrsta skóladaginn og staðfesta hvenær hann er áætlaður

·      Næsta fund (ef við á)
Fyrstu skóladagarnir
Áætlun

• Umsjónarkennari undirbýr bekkinn og myndar vinateymi 

• Umsjónarkennari sér um að merkja hluti í skólastofunni 

• Umsjónarkennari heldur utan um nám nemandans og fylgist með framförum
·  Aðrir kennarar láta umsjónarkennara vita hvernig gengur

• Umsjónarkennari er í góðum samskiptum við foreldra/forráðamenn

• Stöðumat er lagt reglulega fyrir
• Námsáætlun er unnin af ÍSAT kennara í samráði við umsjónarkennara

Framkoma og hegðun

Framkoma og hegðun
 
Áhersla er lögð á að skapa jákvæðan skólabrag og að góður vinnuandi sé ríkjandi. Mikilvægt er að allir í skólanum stuðli að góðum starfsanda þar sem öryggi, vellíðan og heilbrigði eru í fyrirrúmi. Við viljum að gagnkvæmt traust, virðing, samábyrgð, tillitssemi og fáguð framkoma sé höfð að leiðarljósi. Námsagi einkennist af því að tillit sé tekið til þarfa nemenda, þroska þeirra og hæfni með áherslu á mannréttindi, jafnrétti, lýðræðisleg vinnubrögð og bann við mismunun af öllu tagi.


Skólareglur Myllubakkaskóla
Agaferill

Jafnrétti og mannréttindi

Jafnrétti og mannréttindi
Jafnréttisáætlun Myllubakkaskóla er gerð í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, jafnréttisstefnu Reykjanesbæjar. Áætlunin er tvíþætt annars vegar nær hún til starfsfólks (19.-22. gr.) og hins vegar til nemenda (22.-23. gr.).
Stefna Myllubakkaskóla er að allir, nemendur og starfsmenn, njóti jafns réttar óháð kynferði, kynþætti, trú, kynhneigð eða fötlun. Myllubakkaskóli leggur áherslu á jafnrétti einstaklinga með virðingu, ábyrgð og árangur að leiðarljósi. Mikilvægt er að nemendur og starfsfólk skólans hafi jafnan rétt til að hafa áhrif á skólastarfið, stefnumótun og ákvarðanatöku og skal reynt að tryggja það með sem bestum hætti. Þess skal gætt í starfsháttum skólans og daglegri umgengni við starfsfólk sem og nemendur að þeim sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis.
 
Ábyrgð og umsjón með jafnréttismálum
Skólastjóri ber ábyrgð á jafnréttisáætlun skólans og skipar jafnréttisnefnd sem sér um að áætluninni sé fylgt eftir. Aðgerðaráætlun er útbúin en þar kemur fram hvernig áætluninni er viðhaldið, hver/hverjir beri ábyrgð á einstökum þáttum hennar auk upplýsinga um hvenær hver þáttur skal unnin.
 
Jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd er starfandi í Myllubakkaskóla. 
Hlutverk nefndarinnar er:
•      að fylgja jafnréttisáætlun skólans eftir
•      að endurskoða jafnréttisáætlun skólans árlega og gera viðeigandi breytingar
•      að halda utan um gögn sem unnið er að skv. áætluninni eins og tölulegar upplýsingar og tryggja að þær séu birtar 
•      að vinna að umbótum þegar við á
•      að fylgjast með breytingum sem verða á lögum og reglugerðum um jafnréttismál kynjanna
•      að vinna og halda utan um hugmyndabanka/námsefni um jafnréttiskennslu
•      að benda á leiðir til að samtvinna jafnréttisfræðslu við námsefni í samræmi við aðalnámskrá.
 
Auglýst störf
Hjá Reykjanesbæ er lögð áhersla á að starfsauglýsingar séu í anda jafnréttislaga og að auglýst störf standi opin jafnt konum sem körlum.
Hvernig: Í starfsauglýsingum verði vitnað í jafnréttisáætlun skólans og Reykjanesbæjar. Karlar jafnt sem konur verða hvött til að sækja um lausar stöður við skólann. Komi tveir jafnhæfir umsækjendur til greina skal stefna að því að ráða einstakling af því kyni sem hallar á innan skólans, kennslugreinarinnar eða stigsins sem um ræðir. Við sérstakar aðstæður t.d. vegna kyns nemanda sem þarf stuðning eða sérstaka aðstoð, getur verið nauðsynlegt að auglýsa og ráða einstakling af ákveðnu kyni til starfa. 
Hver: Skólastjóri.
Hvenær: Þegar við á.

Endurmenntun og starfsþjálfun 
Öllum starfsmönnum skólans stendur til boða að sækja sér endurmenntun og starfsþjálfun sem hentar hverjum og einum og samræmist stefnu skólans.
Hvernig: Við gerð símenntunaráætlunar er þess gætt að kynjunum sé ekki mismunað og að áætlunin höfði til beggja kynja.
Hver: Skólastjóri.
Hvenær: Á hverju skólaári.

Laun
Í Myllubakkaskóla njóta konur og karlar sömu launakjara og hafa jafna möguleika á breytingum á vinnuaðstæðum s.s. launuðum aukastörfum, stöðuhækkunum og breytingum á starfi. Nauðsynlegt er að fylgjast með launum starfsmanna út frá kynjasjónarmiði og að ekki sé um óútskýrðan launamun að ræða milli kynjanna í skólanum.
Hvernig:  Gerð er athugun á launum starfsmanna með áherslu á jafnan rétt kynjanna.
Hver: Skólastjóri, mannauðsstjóri og launafulltrúi.
Hvenær: Árlega.

Samræming starfs og einkalífs
Í Myllubakkaskóla er lögð áhersla á að koma til móts við þarfir starfsmanna varðandi fjölskyldulíf og gæta þess sérstaklega að sama gildi um bæði kynin. Mikilvægt er að starfsfólk hafi tækifæri til þess að sinna skyldum sínum í starfi jafnt sem einkalífi og gott  jafnvægi sé þar á milli. Reynt er að koma til móts  við starfsmenn um sveigjanleika í störfum þar sem kostur er.
Hvernig: Óskir starfsfólks um sveigjanleika eru metnar eftir aðstæðum. Við innra mat hvert ár er þess gætt að tekið hafi verið tillit til þarfa starfsmanns með tilliti til samræmingar fjölskyldu og atvinnulífs. Í starfsmannasamtali skal sérstaklega ræða þetta og komi óánægja í ljós skal skólastjóri í samvinnu við stjórnunarteymi kanna málið frekar og grípa til aðgerða til að sporna gegn árekstrum milli samræmingar fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku við skólann.
Hver:  Skólastjóri í samvinnu við starfsmenn.
Hvenær:  Í starfsmannasamtölum sem eru árlega og þegar við á.

Kynferðisleg og kynbundin áreitni
Kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin í skólanum og starfsmönnum er gert ljóst að þeir eigi aldrei að sætta sig við slíkt athæfi. Starfsfólk þarf að vera meðvitað um ábyrgð og hvaða leiðir skuli fara ef upp koma tilvik sem varða slíkt áreiti.
Hvernig: Með fræðslu varðandi kynbundna og kynferðislega áreitni.
Hver:  Skólastjórn, jafnréttisráð og trúnaðarmaður.
Hvenær:  Ár hvert skal inna starfsmenn eftir upplifun sinni varðandi kynferðislega eða kynbundna áreitni í starfsmannasamtali og í starfsmannakönnun Skólapúlsins sem eru þættir í innra mati skólans.

Kynjasamþætting
Í Myllubakkaskóla er gengið út frá því að virða sjónarmið beggja kynja og að stuðla að frekari uppbyggingu og auknu jafnrétti kynja. Leitast er við að meta fyrirfram hvaða afleiðingar stefnumótun og ákvarðanartaka geti haft á hvort kyn og bregðast við ef sýnt þykir að verulega halli á annað kynið.
Hvernig: Gátlisti forsætisráðuneytisins, Gætum jafnréttis  og fræðsla um jafnréttismál.
Hver: Jafnréttisnefnd og stjórnendur skólans.
Hvenær: Í lok skólaárs.
 
Nemendur
Í Myllubakkaskóla er þess gætt í öllum starfsháttum skólans og daglegri umgengni við nemendur að þeim sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis heldur sé þörfum beggja kynja mætt í skólastarfinu. Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að markmið jafnréttismenntunar sé að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Skólastarf í anda jafnréttis tekur mið af mismunandi námshæfileikum nemenda og miðar að því að styrkja og efla hvern og einn til framfara og þroska, óháð kynferði.
 
Fræðsla
Nemendur á öllum skólastigum taka þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Þeir fá fræðslu um jafnréttismál þar sem lögð er áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla, almennum hluta 2011 er jafnrétti einn af grunnþáttum menntunar og í skólanum er leitast er við að fylgja því í hvívetna. Nemendur og starfsfólk Myllubakkaskóla er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera virkir þátttakendur í fjölmenningarsamfélagi en nemendur skólans eru af mörgum þjóðernum, víðsvegar að úr heiminum.
Hvernig: Myllubakkaskóli starfar samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla. Kennsla í jafnréttismálum fer fram á öllum sviðum skólastarfsins og kennarar taka mið af því.
Hver: Kennarar.
Hvenær: Þegar við á. Markmið og kennslutilhögun í jafnréttismálum eru sett fram í bekkjarnámskrám að hausti og endurskoðuð að vori.
 
Námsgögn
Kennsla og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað. Kennarar þurfa að gæta þess að nota ekki námsefni sem ýtir undir kynjamismunun eða stöðlun kynhlutverka og þess gætt við innkaup á námsefni.
Hvernig: Námsgagnastofnun hefur útbúið gátlista, þar sem m.a. er horft til kynjasjónarmiða, sem öllum höfundum og öðrum sem vinna fyrir stofnunina er gert að hafa að leiðarljósi. Gæta skal þess að nota ekki gagnrýnislaust námsefni sem sýnir staðlaðar kynjaímyndir og/eða mismunar kynjunum að einhverju leyti.
Hver: Stjórnendur og kennarar.
Hvenær: Þegar við á.

Náms- og starfsfræðsla
Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólanum skulu drengir og stúlkur óháð kyni hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf.  Mikilvægt er að kynna bæði stúlkum og drengjum möguleika á framhaldsmenntun og störfum sem litið hefur verið á sem hefðbundin kvenna- eða karlastörf en jafnframt hvetja nemendur til að prófa það sem hentar hverjum og einum burtséð frá kyni.
Hvernig: Leitað verður til foreldra og nærumhverfisins til að halda stutta fyrirlestra fyrir nemendur og svara fyrirspurnum. Nemendur eru hvattir til að kynna sér nám og störf sem áður hefur verið litið á sem hefðbundnar leiðir kynjanna. Nemendur fá starfsgreinakynningu á vegum bæjarins áður en þeir ljúka grunnskóla.
Hver: Skólastjórnendur.
Hvenær: Þegar við á yfir skólaárið.
Samstarf heimilis og skóla
Starfsfólk skólans þarf að vera meðvitað í samskiptum við foreldra/forráðamenn og gæta þess að útiloka ekki annað foreldri/forráðamann á grundvelli kyns. Mikilvægt er að litið sé á feður og mæður sem jafngild í foreldrasamstarfinu.
Hvernig: Í samskiptum við heimilið er þess gætt að báðir foreldrar séu jafngildir í samstarfinu. Haldið er utan um tölfræðilegar upplýsingar um kynjaskiptingu foreldra í viðtölum og á fundum á vegum skólans.
Hver: Skólastjórnendur, kennarar, foreldrafélag Myllubakkaskóla og jafnréttisnefnd skólans.
Hvenær: Þegar við á.
Telji starfsmaður/nemandi á sér brotið samkvæmt áætlun þessari og lausn finnst ekki innan skólans getur viðkomandi leitað til mannauðsstjóra Reykjanesbæjar.

Tengls við grenndarsamfélagið

Tengsl við grenndarsamfélagið
Markvisst er unnið að því að efla tengslin við grenndarsamfélagið. Grenndarsamfélag skólans er annars vegar landfræðilegt, bæði náttúran og manngert umhverfi og hins vegar félagslegt, svo sem fjölskyldur, stofnanir, fyrirtæki, félög og samtök.

Öryggis- og slysavarnir

Öryggis- og slysavarnir
Öll skólabörn eru tryggð hjá Tryggingarmiðstöðinni (TM) hvort sem það eru líf-, örorku eða slysatryggingar á meðan þau eru á ábyrgð skólans á skólatíma s.s. á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Gera skal skýrslu um öll óhöpp sem koma upp og senda TM til varðveislu. Foreldrum er bent á að reikningar sem verða til vegna áverka/slysa sem börn verða fyrir skulu sendir TM sem sér um að greiða viðkomandi sjúkrakostnað enda sé skýrslan í þeirra höndum.
 
Aðkoma að skólanum og umferðaöryggi
Bílastæði skólans eru við Suður- og Norðurtún. Þeir sem koma akandi í skólann með börn sín eru beðnir að nota aðrein við Sólvallagötu.
Á hverju skólaári koma lögregluþjónar og ræða við nemendur um aðgát í umferðinni. Einnig fer fram umferðarfræðsla í mörgum árgöngum skólans. Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann. Nemendur eru hvattir til að vera með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu.
Reykjanesbær efnir til umferðar- og öryggisátaks á hverju hausti og er markmiðið að vekja almenning til umhugsunar um umhverfið sitt og umferðarmenningu í víðasta skilningi. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að skapa meira öryggi fyrir unga vegfarendur á leið í skólann.
Á helstu umferðarleiðum er 30 km hámarkshraði auglýstur í grennd við alla grunnskóla bæjarins.
 
Skólalóð
Á skólalóðinni eru tvö leiksvæði þ.e. fyrir framan og aftan skólann. Þar eru leiktæki, fótboltavöllur og körfuboltavöllur.
 
Húsnæði skólans
Í elsta hluta Myllubakkaskóla er aðalinngangur inn í skólann. Á 1. og 2. hæð þeirrar byggingar eru 1. - 4. bekkur með sínar kennslustofur. Þar inni er líka kaffistofa starfsmanna, aðsetur frístundar, myndmennt, tónmenntastofa og matsalur. Húsvörður skólans hefur einnig aðsetur þar inni.
Skrifstofa skólans er með aðsetur fyrir framan skólann, en á skólalóðinni eru hvítir gámar þar sem skrifstofustjóri og stjórnendur skólans eru með skrifstofur. Á skólalóðinni eru einnig færanlegar kennslustofur þar sem 5. - 7. bekkur er með sínar heimastofur. Í þeim einingum er einnig íslenska sem annað mál stofa og heimilisfræðistofa skólans. Nemendur í 8. - 10. bekk eru með aðsetur í Íþróttaakademíunni.
Íþróttir í 1. - 10. bekk eru kenndar í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Sundkennsla fer fram í Vatnaveröld við Sunnubraut og er nemendum í 1. - 2. bekk fylgt í sund en fara þarf yfir fjölfarna götu til að komast í Vatnaveröld og íþróttahúsið við Sunnubraut. Nemedur í 8. - 10. bekk stunda einnig íþróttir í Reykjaneshöllinni einu sinni í viku.
 
Slys á skólatíma
Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Skrifstofurstjóri gerir tilvísun í skólanum sem foreldrar taka með sér á HSS og fær þá nemandi viðeigandi meðferð á kostnað skólans. Slysaskráning er gerð í skólanum.
 
Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer skráð í Mentor sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum.
Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma. Skólahjúkrunarfræðingur sér þá um að kenna starfsfólki viðeigandi viðbrögð ef nemandi veikist á skólatíma.
 
Frímínútur og gæsla
Nemendur í 1. - 7. bekk fara út í frímínútum. Varsla í frímínútum, bæði úti og inni er í höndum starfsmanna skólans. Nemendur í 8. - 10. bekk geta verið á sal í frímínútum. Nemendum í 1. - 7. bekk er með öllu óheimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma. Ef foreldrar vilja fá börn sín heim í hádegi skila þeir inn skriflegri umsókn sem hægt er að nálgast á heimasíðu skólans eða hjá skrifstofustjóra.
 
Hjól og önnur farartæki
Hjól og önnur farartæki eru leyfð til að ferðast til og frá skóla og þá er skylda að nota hjálm samkvæmt lögum. Notkun hvers kyns hjóla/farartækja er óheimil á skólalóðinni á skólatíma.
 
Umgengni
Nemendur hengja yfirhafnir á snaga fyrir utan umsjónarstofu sína og láta skóna þar fyrir neðan. Nemendur eru ekki í yfirhöfnum eða með höfuðfat í kennslustundum.
Í kennslulok er það í umsjá kennara og nemenda að ganga vel frá og loka gluggum.
 
Ábyrgð á persónulegum eigum nemenda
Skólinn tekur ekki ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum nemenda, nema hægt sé að rekja það til starfsfólks eða vanbúnaðar skólans. Foreldrar eru beðnir um að sjá til þess að nemendur komi ekki að óþörfu með peninga eða önnur verðmæti í skólann.
 
Brunavarnir / rýmingaráætlun
Skólinn er þátttakandi í árlegum brunavarnardegi sem haldinn er reglulega fyrir yngri nemendur rétt fyrir jól ár hvert. Lionessur færa nemendum í 3. bekk litabækur þar sem fjallað er um brunavarnir á heimilinu. Í för með Lionessum eru fulltrúar frá Bruna-vörnum Suðurnesja og fræða þeir nemendur um efnið. Haldnar eru sérstakar brunaæfingar annað hvert ár þar sem húsrýming er æfð. Nemendur ásamt starfsfólki fara út þá leið sem öruggust er hverju sinni og safnast saman á ákveðnum stað á lóð skólans. Þar er tekið manntal og upplýsingum komið til skólastjóra.
 
Viðbrögð við slysum og áföllum 
Verði barn fyrir slysi eða áfalli á skólatíma er það tafarlaust fært til meðhöndlunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Jafnframt er haft samband við foreldra. Nauðsynlegt er að foreldrar gefi skóla upp öll þau símanúmer sem hægt er að hringja í ef upp koma bráðatilfelli.
 
 
Umferðaröryggi
Lögreglan heimsækir valda bekki skólans á hverjum vetri. Lögreglan ræðir við nemendur um ýmis mál, s.s. umferðarreglur, endurskinsmerki, útivistartíma, lög og reglur og hver þau mál önnur sem þörf krefur hverju sinni. Lögreglan ræðir einnig við nemendur um umferðina og hvernig farið skuli að við mismunandi ferðamáta í skóla. Nemendur koma ýmist gangandi, hjólandi, í farartæki foreldra eða í strætisvagni. Í öllum tilvikum verður að gæta ítrustu varkárni.
 
Öryggi og heilbrigði á vinnustað
Innan skólans er öryggisnefnd, þar eru tveir öryggistrúnaðarmenn, öryggisvörður og eldvarnarfulltrúi sem koma ábendingum frá starfsfólki til skólayfirvalda um það sem betur má fara varðandi aðbúnað og öryggi á vinnustað. 

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi

Viðbrögð við kynbundnu ofbeldi og öðru ofbeldi
 
Nemendur, kennarar og starfsfólk skólans á hverjum tíma mynda skólasamfélag þar sem gagnkvæmt traust og virðing ríkir í samskiptum. Allir einstaklingar innan þessa samfélags eiga að búa við það öryggi að þeir verði hvorki fyrir kynferðislegu né kynbundinni áreitni eða ofbeldi. Ef einstaklingur innan skólans telur sig verða fyrir slíku ber skólasamfélaginu að bregðast við með ábyrgum og skipulögðum hætti.
Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi og höfum því sett þessar verklagsreglur. Verklagsreglurnar eru lifandi skjal sem verður endurskoðað eftir þörfum.
Einstaklingur sem verður var við kynferðislega áreitni eða kynferðislegt ofbeldi er hvattur til þess að tilkynna það til náms- og starfsráðgjafa eða skólastjórnenda eftir því sem hann/hún/hán/þau telur/telja best.
Minnt er á tilkynningaskyldu þeirra sem afskipti hafa af börnum úr Barnaverndarlögum nr. 80/2002 17. gr.

Markmið
Við líðum hvorki kynferðislega áreitni eða ofbeldi né kynbundna áreitni eða ofbeldi í skólanum í kennslu, almennu starfi eða öðrum samskiptum sem eiga sér stað í skólastarfinu eða í tengslum við starfsemi skólans.
Markmið verkslagsreglna þessara er að tryggja að úrræði sé til staðar telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir kynferðislegu og/eða kynbundinni áreitni eða kynferðislegu og/eða kynbundnu ofbeldi.

Skilgreiningar
Með kynbundinni áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni.

Með kynferðislegri áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni.

Með kynbundnu ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.  
Með kynferðislegu ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Leiðir
Nemendur fá fræðslu um kynbundið ofbeldi og annað ofbeldi og þeim gert ljóst hvert þeir geti leitað eftir aðstoð komi slíkt mál upp, hvort heldur sem er af hálfu annarra nemenda eða starfsfólks.
Fræðsla til nemenda um kynþroska, kynlíf og siðferði í samskiptum kynjanna verði samkvæmt markmiðum aðalnámskrár grunnskóla og skólanámskrá. Á hverju hausti er farið yfir það með starfsfólki skólans hvað getur falist í kynbundnu áreiti í samskiptum nemenda og starfsmanna. Nemendum verður einnig kynnt hvert þeir geti leitað.

Nemendur
Í framhaldi af tilkynningu um grun um brot af ofangreindu tagi fer eftirfarandi ferli í gang innan skólans:
Náms- og starfsráðgjafi og stjórnendur hittast og skipuleggja næstu skref.
Fræðslustjóri, grunnskólafulltrúi og yfirsálfræðingur Reykjanesbæjar eru upplýstir um málið.
Tilkynning og efni hennar eru borin undir barnaverndarnefnd.
Haft er samband við forráðamenn og fundur með þeim skipulagður.
Málið er skoðað og rætt við hlutaðeigandi.
Skólayfirvöld aðstoða málsaðila við að leita sér sérfræðiaðstoðar meðferðaraðila.
Ákveði málsaðilar að leita réttar síns munu skólastjórnendur og ráðgjafar skólans vera viðkomandi til aðstoðar.
Þegar könnun máls er lokið eru niðurstöður kynntar málsaðilum og eftir atvikum sendir skólinn tilkynningu til barnaverndarnefndar.
Eftirfylgni er höfð með málsaðilum eftir því sem þurfa þykir.
Þeim sem vinna að viðkvæmum málum innan skólans er skylt að gæta trúnaðar.
Ekki er aðhafst í máli nema sá sem verður fyrir áreitni eða kynferðislegu ofbeldi (og forráðamenn eftir því sem við á) sé samþykkur því. Sé hins vegar um brot á landslögum (broti sem er lýst í XXII. kafla almennra hegningarlaga) verður máli vísað til barnaverndarnefndar.
Viðbrögð
Ef aðilar máls eru í sama skóla eða eru nemendur í sama námsumhverfi (í sama bekk eða árgangi) þá ber að skoða hvort að gera þurfi ráðstafanir varðandi samskipti, samvinnu og samneyti málsaðila. Reynt skal að ná sáttum um vinnutilhögun meðan málið er í skoðun. Ekki er gert ráð fyrir að flytja til í námi einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti, vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.
 
Tímarammi
Brýnt er að brugðist sé við málum sem þessar verklagsreglur fjalla um svo fljótt sem auðið er og að niðurstaða liggi fyrir eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að nemandi eða forráðamaður sendi inn formlega tilkynningu.
 
Viðurlög
Viðurlög við broti eru samkvæmt skólareglum. Gerandi verður látinn axla ábyrgð og getur verið fluttur til í
annan skóla
 eða verið vikið úr skóla.
Sé um visvísandi rangar ásakanir að ræða þarf að leita sátta þannig allir geti stundað sína vinnu eða nám í öruggu umhverfi, ein leið getur verið að skipta um skóla.

Áfengis- og fíknivarnir

Áfengis- og fíknivarnir
Áfengis- og fíknivarnir taka til almennra forvarna s.s. gagnvart tóbaki, nikótíni, áfengi, öðrum vímuefnum og annars konar fíkn. Myllubakkaskóli skal vera vímuefnalaus. Nemendum er óheimilt að nota tóbak, veip, nikótínvörur, áfengi eða önnur fíkniefni á skólatíma eða á viðburðum á vegum skólans.   Skólinn fylgir lögum um tóbaksvarnir sem felur í sér að nemendum, starfsfólki, foreldrum og gestum er ekki heimilt að nota slík efni á skólasvæðinu.
Myllubakkaskóla ber skylda til að fræða nemendur og miðla upplýsingum varðandi fíkn og fíknivanda. Markmiðið er að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast reykingum, vímuefnum eða leiðast út í fíknihegðun. Fræðslan fer fram með fjölbreyttum hætti og koma margir aðilar að henni, svo sem kennarar, námsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og utanaðkomandi aðilar sem eru sérfræðingar á ákveðnum sviðum.
 
Leiðir að forvörnum
·        Styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda svo þeir geti tekið afstöðu gegn vímuefnum og staðið á móti neikvæðum félagslegum þrýstingi og geri sér grein fyrir áhrifum fyrirmynda í mótun lífsstíls.
·        Kennsla í lífsleikni með notkun námsgagna sem eru byggð á fræðilegum grunni og aldursmiðuð.
·        Leiðbeina nemendum um að temja sér jákvæð samskipti, umburðarlyndi, kurteisi og tillitssemi í samskiptum við aðra.
·        Fræða nemendur um skaðsemi tóbaks, nikótíns, áfengis og annarra fíkniefna og afleiðingar af neyslu þessara efna. Sömuleiðis að fræða um annars konar fíkn t.d. netfíkn.
·        Eiga öflugt samstarf við forráðamenn, fræðsluskrifstofu, félagsmiðstöðvar, heilsugæslu, félagsþjónustu og lögreglu um samræmdar aðgerðir gegn neyslu vímuefna.
·        Finna lausnir að úrræðum fyrir nemendur í áhættuhópum.
·        Námsráðgjafi starfar við Myllubakkaskóla. Nemendur geta leitað til hans og rætt við hann um sín persónulegu mál.
·        Hjúkrunarfræðingur hefur fasta viðveru í skólanum og sinnir meðal annars forvarnarstarfi. Forvarnarefni heilsugæslunnar, 6H, er notað við þá fræðslu.
 
Viðbrögð þegar upp kemur grunur eða vitneskja um notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum
 
Öll notkun á tóbaki, nikótíni, áfengi eða öðrum vímuefnum er bönnuð í og við skólann samkvæmt skólareglum og er forráðamönnum gert viðvart ef nemandi verður uppvís að slíku broti.
Hafi starfsfólk skólans grun um að nemandi sé farinn að reykja eða nota tóbak/nikótín gerir kennari, námsráðgjafi eða stjórnandi forráðamönnum viðvart.
Ef grunur um neyslu áfengis eða fíkniefna nemanda vaknar hjá starfsfólki skólans er umsjónarkennara, námsráðgjafa eða stjórnanda tilkynnt um málið. Forráðamenn eru upplýstir og þeim bent á hvert þeir geti leitað eftir aðstoð.
Ef staðfestar upplýsingar liggja fyrir um áfengisneyslu nemanda eða neyslu annarra vímuefna skal námsráðgjafi eða skólastjórnandi boða forráðmenn til fundar.
Málinu er eftir atvikum vísað til nemendaverndarráðs.
Skólastjóri tilkynnir barnaverndaryfirvöldum skriflega um málið í samræmi við niðurstöðu nemendaverndarráðs.
Skóli og barnaverndaryfirvöld vinna saman að framgangi máls.
 
 
Góð ráð til forráðamanna
 
Þættir sem auka líkurnar á heilbrigðu og vímuefnalausu lífi ungmenna:
Gott sjálfstraust.
Sterk sjálfsmynd.
Sterk félagsleg tengsl og vinir.
Lögbundinn útivistartími virtur.
Að börn séu undir eftirliti þegar þau koma saman.
Að forráðamenn gefi sér tíma í samveru með barni sínu.
Þekkja vini barnsins og forráðamenn þeirra.
Hvetja barnið til hvers konar íþrótta- og tómstundaiðkunar.
Vera börnunum góð fyrirmynd.
Stuðningur, aðhald og skýrar reglur.
Jákvætt viðhorf til skóla og áhugi á námi barns.
Góð samvinna heimila og skóla.
Forráðmenn séu vel upplýstir um forvarnir og uppeldismál almennt.
 
Æskileg viðbrögð við vímuefnaneyslu barna
Sýndu rósemi og yfirvegun í samtali við barnið.
Aflaðu þér upplýsinga um vímuefni. Þær má t.d. finna á netinu eða hjá forvarna- og heilbrigðisaðilum.
Hafðu samband við aðra forráðamenn sem eru í svipaðri stöðu. Reynsla þeirra getur oft hjálpað mikið. Einnig er hægt að leita til heilsugæslu eða barnaverndar.
Æskilegt er að upplýsa skólann um notkun barns á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum eða grun um slíkt.
 
Merki um fíknivanda
 
Líkamleg einkenni
Áhugaleysi á eigin útliti t.d. klæðnaði eða hreinlæti.
Minnkandi matarlyst.
Breyting á heilsufari.
Breyting á svefnvenjum.
 
Tilfinningaleg einkenni
Áhugaleysi, uppgjöf, vonleysi.
Kvíði, spenna, álag.
Þreyta, aukin svefnþörf.
Skyndilegir erfiðleikar í sambandi við einbeitingu/rökhugsun.
Sektarkennd, samviskubit.
Skapsveiflur, skapbrestir.
Einangrun eða minnkandi ánægja af félagslegum samskiptum.
 
Hegðunarleg einkenni
Dvínandi árangur í skóla.
Minnkandi áhugi á íþróttum og tómstundum.
Sjálfskaðandi hegðun.
Ögrandi lífsstíll sem birtist t.d. í klæðnaði.
Áhugaleysi um eigur sínar.
Andfélagsleg hegðun t.d. þjófnaðir eða árásir.
 
Hvert er hægt að leita þegar vandi steðjar að?
Í Myllubakkaskóla er starfandi námsráðgjafi sem bæði forráðamenn og nemendur geta leitað til varðandi nám og líðan. Námsráðgjafi getur hlustað, gefið góð ráð og leiðbeint með næstu skref. Sömuleiðis er starfandi hjúkrunarfræðingur í skólanum sem forráðamenn og nemendur geta leitað til.
 
Góðar vefsíður
foreldrahus.is
forvarnir.is
samanhopurinn.is
heilsuvera.is
spilavandi.is
abyrgspilun.is
saft.is

Viðbragðsáætlun vegna hættuástands

Viðbragðsáætlun vegna hættuástands
 
Ef upp kemur hættuástand í eða við skólann er mikilvægt að láta vita hvar hættan er, með því að hringja í 112. Einnig skal hringja í skrifstofustjóra og/eða stjórnendur eða láta þá vita á annan hátt.
1. Viðbrögð kalla á að starfsfólk og nemendur leggi sjálfstætt mat á hvað hægt er að gera og hvað ætti að gera fyrst, og hafa í huga það meginhlutverk að vernda og komast burt úr hættulegum aðstæðum.
2. Reyna eftir fremsta megni að koma sér burt úr aðstæðum. Setja sig í samband við lögreglu og stjórnendur skólans til að ákvarða hvort eigi að fara í rýmingu á byggingunni eða halda kyrru fyrir og læsa skólastofum og öðrum rýmum. Starfsfólk ætti að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort læsa skuli eða yfirgefa rýmið ef um lífshættulegar aðstæður er að ræða.
3. Ef skotárás eða árás með eggvopni er yfirstandandi skal aðeins rýma ef staðsetning geranda er þekkt og útganga er auðveld og örugg. Ef staðsetning geranda eða aðstæður leyfa ekki rýmingu, þá skal læsa rýminu, slökkva ljós, fela sig og hafa hljótt.
4. Þegar hættuástandi er yfirstaðið eða ef öruggt þykir þá skal meta hvort einhver er meiddur, alvarlega slasaður eða særður og gera viðeigandi ráðstafanir.
5. Áfallaáætlun skólans virkjuð.

Áfallaáætlun

Áfallaáætlun
Áfallaáætlun er áætlun um viðeigandi viðbrögð þegar áföll verða, svo sem bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir atburðir sem líklegir eru til að kalla fram áfallastreitu eða sorgarviðbrögð. 
Áætlunin segir til um hver sinnir hvaða hlutverki, í hvaða röð og hvernig ber að bregðast við. Taka skal tillit til óska fjölskyldna þeirra sem hlut eiga að máli hverju sinni. 
Skólastjóri eða stangengill hans kallar saman áfallaráð og stýrir vinnu þess og skipulagi. 
 
Áfallaráð 
Í áfallaráði hvers grunnskóla sitja að öllu jöfnu eftirtaldir aðilar: 
·       Skólastjóri 
·       Aðstoðarskólastjóri 
·       Deildarstjórar 
·       Námsráðgjafi 
 
Þeim innan handar er stjórnendateymi fræðsluskrifstofu og prestur. Hver grunnskóli ákveður hverjir sitja í sínu áfallaráði. 
 
Hlutverk áfallaráðs 
Í megin atriðum skal hlutverk áfallaráðsins vera að gera vinnuáætlun svo bregðast megi fumlaust og ákveðið við þegar áföll verða. Áfallaráð sér til þess að allt starfsfólk fái kynningu á því hvernig bregðast skuli við áföllum. Einnig þarf það að sjá til þess að starfsfólk sem veitir áfallahjálp fái stuðning og hjálp. 
Allir sem sitja í áfallaráði þurfa að vera upplýstir um hlutverk sitt í ráðinu. 
Áfallaráð skal funda þegar vitneskja berst um áfall og skólastjóri metur það mikilvægt að kalla ráðið saman. 
Í gæðahandbók Reykjanesbæjar eru gátlistar fyrir starfsfólk aðgengilegir til þess að styðjast við eftir því hvort um nemanda eða starfsfólk er að ræða. 
Við önnur áföll en tilgreind eru hér að framan svo sem kynferðislega misnotkun, ofbeldi, skilnað foreldra, atvinnuleysi til langs tíma, mannshvarf eða fangelsun náins ættingja, þurfa nemendur mikinn stuðning og skilning. Við aðstæður sem þessar er rétt að hafa samráð við foreldra eða aðra aðstandendur. Ef grunur vaknar um kynferðislega misnotkun eða annars konar ofbeldi ber ávallt að hafa samband við barnaverndarnefnd. Hægt er að óska nafnleyndar þegar tilkynnt er. Ef starfsfólk skólans lendir í erfiðleikum, svo sem skilnaði, slysi eða langvarandi veikindum innan fjölskyldu skal haft samráð við viðkomandi um hvort og hvernig starfsfólk skólans geti komið því til aðstoðar. 

Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli
Hnetulaus

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

 • Foreldrafélag Myllubakkaskóla
 • FFGÍR
 • Reykjanesbær - Menntastefna
 • Reykjanesbær