Mánudaginn 5. mars fóru nemendur í 8. bekk í Reykjavíkurferð með kennaranemunum Einari og Guðbjörgu, og samfélagsfræði- og umsjónarkennurum. Tilgangur ferðarinnar var að skoða sýninguna Óskabarn í Þjóðmenningarhúsi þar sem saga Jóns Sigurðssonar er sögð á skemmtilegan hátt. Þennan sama dag hófust réttarhöld Landsdóms gegn Geir H. Haarde í Þjóðmenningarhúsi og voru því nemendur okkar algjörlega í eldlínunni þann daginn! Mikið var af fréttamönnum á staðnum sem fóru öðru hvoru í beinar útsendingar á meðan á heimsókn okkar stóð. Við þurfum stundum að læðast um húsið, bæði til að trufla ekki réttarhöldin sjálf og til að trufla ekki beinu útsendingar fréttamanna!
En tilgangur ferðarinnar var ekki eingöngu að fræðast um sjálfstæðishetjuna okkar heldur líka að lyfta okkur aðeins upp. Frá Þjóðmenningarhúsi fórum við í Skautahöllina í Laugardalnum þar sem hver stjarnan á eftir annarri uppgötvaðist í skautaíþróttinni!
Þetta var skemmtilegur dagur og nauðsynleg tilbreyting í kennslunni þegar enn eru rúmar 3 vikur í páskafrí :-)