• Skrifstofan er opin frá:

    Mán - fim: 7:45 - 15:30
    Fös: 7:45 - 14:00

  • Sími á skrifstofu

    420 1450

25. febrúar 2022

Myllubakkaskóli 70 ára

Myllubakkaskóli 70 ára

Myllubakkaskóli á sér langa og ríka sögu sem barnaskóli í Keflavík og síðar Reykjanesbæ. Í gegnum árin höfum við verið heppin með starfsfólk skólans sem hefur haft mikla ástríðu fyrir starfi sínu í þágu nemenda og lagt sig í líma við að koma til móts við nemendur skólans á hvaða hátt sem er. Við erum stolt af þeirri staðreynd og leyfi ég mér að segja að langflestir nemendur sem útskrifast úr skólanum hugsi til hans með hlýju og eigi jákvæðar minningar af sinni skólagöngu í Myllubakkaskóla. Það lýsir sér kannski best í því hve margir fyrrverandi nemendur koma til starfa hjá okkur seinna á lífsleiðinni. Mylluhjartað lifir lengi sé vel hlúð að því.

Myllubakkaskóli hefur skapað sér ákveðna sérstöðu hvað varðar listir, en mikið hefur verið lagt í söng og leik í gegnum árin og hefur starfsfólk okkar verið með eindæmum skapandi og framkvæmdaglatt í þeim efnum. Undirritaður man það vel hve gaman var að æfa og sýna atriði á árshátíð skólans og hef ég eins og allir sem hafa komið á sýningar hjá okkur séð hversu innilega nemendur lifa sig inn í sín hlutverk, stór sem smá. Við höfum talið að sá lærdómur sem hlýst af því að taka þátt sýningum, stórum sem litlum, sé meira en á pari við hefðbundinn lærdóm í skólastofunni. Trúum því að þátttakan efli þau og geri þau stolt af sér og sínum skóla. Nemendur læra þar umfram allt að einkunnarorð skólans eru ekki orðin tóm heldur hafa þau merkingu, þetta eru orð sem við vinnum eftir í leik og starfi:

Virðing - Ábyrgð - Jafnrétti - Árangur

Myllubakkaskóli varð 70 ára þann 17. febrúar síðastliðinn og þrátt fyrir þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir með skólann okkar þá buðum við öllum nemendum og starfsfólki skólans í afmælisveislu þann daginn. Reyndum að hafa daginn fullan af gleði og uppákomum. Allir fengu afmælisköku og ávaxtadrykk um morguninn. Nemendur spiluðu og léku sér á sínum starfstöðvum. Við komum svo öll saman fyrir framan Myllubakkaskóla og sungum fyrir hann afmælissönginn þar sem Bryndís Björg skólastjóri leiddi okkur í söngnum. Að því loknu dönsuðum við af okkur skóna, starfsfólk, nemendur og aðrir gestir.

Þó vel hafi tekist til að halda uppá afmæli skólans þá er það ósk okkar að við getum komið saman að ári liðnu í endurbættu húsnæði Myllunnar og haldið vel og innilega uppá afmæli skólans.

Til hamingju allir með 70 ára afmæli Myllubakkaskóla.

Fleiri myndir má sjá í myndasafni.

Víkurfréttir komu í heimsókn og er umfjöllun þeirra hér.

Myllubakkaskóli er hnetulaus skóli
Hnetulaus

Myndirnar sýna dæmi um hnetur eða mat sem inniheldur hnetur. Þær geta leynst í ýmsum öðrum matvörum.

  • Foreldrafélag Myllubakkaskóla
  • FFGÍR
  • Reykjanesbær - Menntastefna
  • Reykjanesbær