9. Stoðkerfi og þjónusta

9.1 Sérfræðiþjónusta
Fræðsluskrifstofan veitir sérfræðiþjónustu í samræmi við 40. grein grunnskólalaga.
Á Fræðsluskrifstofu hafa eftirfarandi sérfræðingar aðstöðu: sálfræðingar, talmeinafræðingur, sérkennslufulltrúi og kennsluráðgjafar. Sálfræðingur skólans er Sigurður Þorsteinsson.
Sálfræðingur veitir börnum, foreldrum/forráðamönnum og kennurum ráðgjöf og stuðningviðtöl og sinnir sálfræðilegri greiningu nemenda. Beiðni um sálfræðiaðstoð kemur frá kennurum og /eða foreldrum á sérstöku eyðublaði. Sálfræðingur veitir m.a. stuðningsviðtöl, gerir athugun og mat á þroska, líðan og hegðun. Að lokinni athugun gerir hann tillögur um úrbætur og aðstoð. Greininga- og stuðningsviðtöl fara fram í skólanum eða á fræðsluskrifstofu.
Talmeinafræðingur greinir tal- og málörðugleika og veitir meðferð.
Sérkennsluráðgjafi kemur að greiningu á námsörðugleikum og veitir kennurum og foreldrum ráðgjöf.

9.2 Nemendaverndarráð
Í skólanum starfar nemendaverndarráð í samræmi við grunnskólalög 91/2008. Hlutverk þess er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi heilsugæslu, námsráðgjöf og sérfræðiþjónustu og vera skólastjóra til aðstoðar við gerð og framkvæmd áætlana um sérstaka aðstoð við nemendur. Ráðið fundar tvisvar í mánuði og fundargerðir eru ritaðar. Í nemendaverndarráði sitja skólastjóri, aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri, umsjónarmaður sérkennslu, sálfræðingur skólans, sérkennslufulltrúi, námsráðgjafi og skólahjúkrunarfræðingur. Starfsmenn skólans og foreldrar/forráðamenn nemenda geta vísað málum til nemendaverndarráðs. Öll mál sem rædd eru í nemendaverndarráði eru trúnaðarmál.

9.3 Náms- og starfsráðgjöf
Við Myllubakkaskóla er starfandi náms- og starfsráðgjafi í fullu starfi. Hann er trúnaðarmaður og málsvari allra nemenda skólans. Nemendur geta leitað til ráðgjafans hvenær sem er og milliliðalaust með allt frá saklausum vangaveltum til minni eða stærri persónulegra vandamála.
Náms- og starfsráðgjafinn reynir eftir fremsta megni að eiga persónuleg dagleg samskipti við sem flesta af nemendum skólans. Þar til viðbótar veitir hann nemendum leiðsögn varðandi námstækni, skipulag og heilbrigt líferni, bæði með einstaklingsviðtölum og hópavinnu eftir því sem við á.
Mikilvægur þáttur í starfi ráðgjafans er að leiðbeina nemendum í elstu bekkjum skólans með val á framhaldsnámi og vangaveltur um framtíðina. Í því skyni fær hann alla nemendur 10.bekkjar í persónuleg viðtöl tvisvar á skólaárinu, að hausti og vori. Auk þess eru allir nemendur í 9. bekk boðaðir í eitt persónulegt viðtal eftir áramót.
Náms- og starfsráðgjafinn er bundinn þagnarskyldu um öll sín samskipti við nemendur, foreldra, starfsmenn skólans og aðra aðila sem hann starfar með.

9.4  Stuðningskennsla
Umsjónarmaður sérkennslu skipuleggur sérkennslu ásamt stjórnendum skólans. Það eru þrír hópar sem er aðallega beðið um stuðning fyrir: Nemendur sem ná ekki bekkjarmarkmiðum í lestri, nemendur sem ná ekki að halda í við jafnaldra í stærðfræði og nemendur sem eiga við hegðunarraskanir að stríða. Umsjónarmaður sérkennslu sinnir fyrst og fremst lestri (sjá lestrarstefnu) og hefur sér til aðstoðar reynslumikla kennara, annar kennari sér um skipulagningu stærðfræði á yngsta stigi og hluta til á miðstigi auk þess sem nokkrir aðrir kennarar koma að stærðfræðikennslu á mið- og unglingastigi. Í skólanum er starfrækt deild sem ber heitið Bergið. Þar vinna tveir starfsmenn, annar í hlutastarfi en hinn í fullri stöðu. Bergið sér um nemendur með hegðunarraskanir. Starfið þar er í hægri og góðri uppbyggingu og þegar líður á starfsárið verður félagsfærniþjálfun sinnt þar af krafti. Miklar vonir eru bundnar við þann þátt. Auk þess styðja starfsmenn skóla við sérkennsluna með margvíslegum hætti.
Sérkennsla er í stöðugri þróun og það er von þeirra sem að henni standa að geta tekið framfaraskref á hverju skólaári. Margt er enn í vinnslu, sumt fullmótað og annað á fósturstigi. Það er mikilvægt að auka faglega þekkingu í sérkennslu og reyna að láta hana vera á sem fæstra höndum.
Hvað veldur því að börn fá stuðning við námið? Þar vegur þyngst greiningar frá sérfræðingum. En einnig er horft á stöðu nemenda.
Þeir nemendur sem fá sérkennslu fá einstaklingsnámskrá og vorskýrsla er einnig fyllt út. Í einstaklingsnámskrá eru sett markmið fyrir stuðningskennsluna. Ef að nemandi tekur miklum framförum er námsskrá hans endurskoðuð og uppfærð. Ef nemandi tekur enn meiri framförum er hann útskrifaður. Vorskýrslan segir til um hvernig starf vetrarins gekk og kemur með hugmyndir að framhaldi fyrir næsta vetur.
Undanþágur frá aðalnámskrá eru í samræmi við kafla í almenna hluta Aðalnámskrár grunnskóla (2011, bls. 40).

9.5 Beiðnir um stuðning
Á vorin fylla umsjónarkennarar út beiðni um sérkennslu fyrir næsta skólaár. Auk þess berast beiðnir jafnt og þétt yfir skólaárið. Þar sem yfireitt er beðið um stuðning fyrir 25-30% nemenda er ómögulegt að sinna því öllu. Því er mikilvægt að forgangsraða og reyna að bæta starfið frá ári til árs. Langtímamarkmið er að ná sérkennsluhlutfalli niður í 3-7%.

9.6 Beiðnir um sérfræðiaðstoð
Umsóknir um sérfræðiþjónustu skulu berast til umsjónarmanns sérkennslu sem tekur þær fyrir á nemendaverndarráðsfundum sem haldnir eru annan hvern þriðjudag. Umsóknunum þurfa að fylgja allir viðeigandi listar. Hægt er að nálgast þá á skrifstofu skólastjóra. Fyrr er ekki hægt að taka umsóknina fyrir. Þegar beiðin hefur verið samþykkt fá foreldrar tilkyningu þess eðlis og upplýsingar um þann sem hefur umjón með málinu. Umsókn þarf alltaf að vera samþykkt af foreldrum/forráðamönnum og undirrituð af þeim.

9.7 Einstaklingsnámskrár
Einstaklingsnámskrár eru unnar fyrir þá nemendur sem fá stuðningskennslu. Þær eru unnar af þeim kennurum sem sjá um kennsluna í samráði við umsjónarkennara. Þar koma fram markmið með kennslunni. Við upphaf kennslunnar er staða nemandans við könnuð. Þegar kennslu lýkur þarf að meta stöðuna aftur og gera grein fyrir því hvort einhverjar framfarir hafa verið.

9.8 Fjölþjóðadeild
Í Fjölþjóðadeild er kennd íslenska sem annað tungumál. Íslenska sem annað tungu-mál er námsgrein fyrir nemendur sem hafa ekki nægilegt vald á íslensku til að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við aðra nemendur. Þetta á jafnt við um nemendur af íslenskum og erlendum uppruna (Aðalnámskrá grunnskóla, íslenska sem annað tungumál, bls. 20).
Í Fjölþjóðadeild Myllubakkaskóla sækja tíma nemendur sem ýmist eru af erlendum uppruna eða íslenskir nemendur sem hafa búið erlendis í lengri eða skemmri tíma. Þessir nemendur tilheyra sínum bekk en sækja íslenskutíma í Fjölþjóðadeild. Einnig er veitt aðstoð í öðrum greinum ef þörf krefur og þá í samstarfi við bekkjarkennara.

9.9 Varðveisla gagna
Trúnaðarskjöl eru þau gögn sem skólinn varðveitir frá sérfræðingum og hafa m.a. að geyma upplýsingar um niðurstöður greininga yfir nemendur. Foreldrar eiga jafnan eintak af þessum gögnum en ef svo er ekki eiga þeir rétt á að fá afrit af þeim. Þessi gögn fara ekki á milli skóla nema með skriflegu samþykki foreldra.

9.10 Áfallaráð
Áfallaráð fer með verkstjórn þegar áföll verða, s.s. bráð veikindi, alvarleg slys, dauðsföll eða aðrir válegir atburðir sem snerta nemendur og / eða starfsmenn skólans. Áfallaráð skipa: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, námsráðgjafi, skólasálfræðingur og prestur er kallaður til ef þurfa þykir. Skólastjóri eða staðgengill hans kallar áfallaráð saman.

9.11 Einelti
Einelti er ekki undir neinum kringumstæðum liðið í Myllubakkaskóla. Hlutverk allra starfsmanna skólans er að vera vakandi fyrir líðan og velferð nemenda. Mikilvægt er að hver sá sem verður var við einelti komi þeirri vitneskju til umsjónarkennara. 
Vakni grunur um einelti fer í gang markvisst ferli sem skiptist í þrjú stig: 1) könnunarstig 2) aðgerðastig 3) sértæk úrræði. Að loknu hverju stigi er farið ítarlega yfir stöðu málsins, gögnum safnað og næstu skref ákveðin. Ferlinu er stýrt af aðgerðahópi sem í sitja skólastjóri, námskráðgjafi og umsjónarkennari þolanda.

9.12 Hjúkrunarfræðingur / heilsugæsla

Heilsuvernd í skólum Reykjanesbæjar er í höndum hjúkrunarfræðinga Heilbrigðis-
stofnunar Suðurnesja. Markmiðið er að fylgjast með andlegum, félagslegum og líkamlegum þroska nemenda ásamt því að veita ráðgjöf og gera ráðstafanir til lagfæringar ef eitthvað er að. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og Lýðheilsustöðvar. Áherslur fræðslunnar eru Hollusta - Hvíld - Hreyfing – Hreinlæti - Hamingja - Hugrekki og kynheilbrigði.
Fræðsla
Skólahjúkrunarfræðingur sinnir fræðslu fyrir ákveðna bekki eftir því sem við verður komið.

Líkamlegt eftirlit
Ef ástæða þykir til vísar skólahjúkrunarfræðingur nemanda til læknis. Skólahjúkrunarfræðingar sjá um heilsufarsskoðanir auk ónæmisaðgerða í þeim bekkjum sem við á og eru þær sem hér segir :
1. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf.  Einnig er mæld heyrn hjá börnum sem ekki hafaverið heyrnarmæld áður.
4. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf
7. bekkur: Hæð, þyngd og litaskynspróf ásamt stuttu viðtali um lífsstíl og líðan. Bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum, einnig eru stúlkur bólusettar gegn leghálskrabbameini.
9. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf ásamt stuttu viðtali um lífsstíl og líðan. Bólusetning gegn mænusótt, barnaveiki, kíghósta og stífkrampa.
Send er tilkynning heim með nemendum fyrir bólusetningar.
Þeir foreldrar sem þess óska geta fengið viðtal við skólahjúkrunarfræðing.

9.13 Lyfjagjafir
Í flestum skólum eru ávallt einhver börn sem þurfa að taka inn lyf á skólatíma. Í engu tilviki getur barn borið ábyrgð á lyfjatöku. Ábyrgðin er foreldra / forráðamanna en skólahjúkrunarfræðingur og starfsmenn skólans aðstoða barnið við lyfjatökuna ef þess er kostur. Hjúkrunarfræðingur skólans skal hafa upplýsingar um allar lyfjagjafir barna í skólanum og ber foreldrum og lækni barnsins að undirrita eyðublað varðandi lyfjagjöf (eyðublað hjá hjúkrunarfræðingi).

9.14 Flúor
Hjúkrunarfræðingur sér um að nemendur 1., 7. og 10. bekkjar skólans fái flúorskolun en stefnt er að því að flúorskolun verði á tveggja mánaða fresti þrjá daga í röð eða alls tólf skipti yfir skólaárið

9.15 Tannvernd
Skólahjúkrunarfræðingur mun sjá um tannfræðslu í 1., 4., 7. og 10. bekk.

9.16 Lús
Foreldrar eru minntir á að athuga vel hár og hársvörð barna sinna í upphafi skólaárs þar sem lúsar verður vart á hverju hausti. Hlutverk skólahjúkrunarfræðings felst ekki í því að leita að lús eða kemba börnunum heldur vera ráðgefandi meðferðaraðili fyrir foreldra og skóla. Því er þeim tilmælum beint til foreldra og forráðamanna barna að láta skólahjúkrunarfræðing vita ef barn fær lús. Samkvæmt tilmælum frá sóttvarnalækni er þetta skráningskylt og farið er með þessar upplýsingar sem trúnaðarmál eins og sjúkraskrárupplýsingar.


Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær