8. Nám og kennsla

8.1 Skólasetning
Skólasetning fer fram á sal skólans fyrsta dag hvers skólaárs. Að lokinni skólasetningu, sem er aldursskipt, fylgja nemendur umsjónarkennara til heimastofu þar sem ýmsum upplýsingum er komið til nemenda og foreldra/forráðamanna. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að mæta ásamt börnum sínum á skólasetningu.

8.2 Skólaslit
Skólaslit eru síðasta dag hvers skólaárs. Skólaslit, sem fara fram á sal skólans, eru aldursskipt. Á skólaslitum eru einstaklingum og hópum veittar viðurkenningar fyrir námsárangur, hegðun og umgengni. Sérstök viðurkenning ,,Kennaraeplið” er veitt nemanda 10. bekkjar fyrir ábyrgð, jákvæðni og tillitssemi. Að lokinni athöfn á sal fara nemendur ásamt umsjónarkennurum sínum í heimastofu þar sem þeir fá vitnisburðarblöð afhent. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að koma með börnum sínum á skólaslit.

8.3 Kennsluskipan
Myllubakkaskóli er heildstæður grunnskóli fyrir nemendur á aldrinum 6 - 16 ára. Kennsla hefst kl. 8:10 á morgnana og lýkur kl. 14:40 en valgreinatímum 8., 9. og 10. bekkjar lýkur kl. 15:20. Í heimilisfræði og myndmennt, textíl og tæknimennt er flestum bekkjum skipt í tvo hópa og fær hver hópur kennslu í eina önn í einu en veturinn skiptist í fjórar annir. Skipt er í október, janúar og mars og endar hver önn með foreldradegi. Sundkennsla fer fram í Sundmiðstöðinni og fá nemendur einn sundtíma í hverri viku. Nemendur 6. - 10. bekkjar sækja íþróttakennslu í Íþróttamiðstöð Keflavíkur við Sunnubraut en nemendur 1.- 5. bekkjar í íþróttahús Myllubakkaskóla. Nemendur 1. og 2. bekkjar fá fornámskennslu tónlistarnáms sem kennari Tónlistarskóla Reykjanesbæjar annast.

8.4 Heimanám
Heimanám er hluti af námi nemenda þar sem foreldrum gefst jafnframt tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna. Áhugi foreldra, hvatning og þátttaka í námi barna sinna skiptir miklu máli hvað varðar gengi og árangur í skóla. Nemendur vinna eftir áætlun sem ýmist er unnin af bekkjarkennara eða er samvinnuverkefni nemenda, kennara og foreldra. Nemendur á unglingastigi, 8. - 10. bekkur, skrá sjálfir heimavinnu í skóladagbók (kompu). Heimavinna er einnig skráð á Mentor.

8.5 Lestrarstefna     
Lestur er undirstaða alls náms og mikilvægi hans verður seint ofmetið. Síðustu ár hefur verið lögð mikil áhersla á snemmtæka íhlutun, sem felst í því að veita nemendum aðstoð sem fyrst í stað þess að bíða og sjá hvernig fer. Ef það er ekki unnið markvisst með nemanda frá upphafi er viðbúið að hann dragist aftur úr og bilið á milli hans og þeirra nemenda sem vel gengur og sækist lestrarnámið auðveldlega verði alltaf meira og meira. En lestarastefna skólans miðast ekki eingöngu við að aðstoða nemendur sem eiga í vandræðum heldur einnig að veita öllum viðeigandi þjónustu. Skólinn notast einnig við LÆSIS-skimanir í sama tilgangi. Mikil áhersla er á skimun sem er lögð fyrir seint í 2. bekk þar sem hefð hefur myndast fyrir því í Reykjanesbæ að líta á niðurstöður hennar sem mikilvægan mælikvarða á stöðu mála.
Til að fylgjast með gengi nemanda og að auðvelda skipulagningu kennslunar eru lagðar fyrir skimanir. Þær eru ekki hugsaðar sem próf heldur til þess að kennarar fái góða mynd af stöðu nemendahópsins og geti forðast að kenna nemendum það sem þeir kunna þegar og geti veitt þeim aðstoð sem þurfa meiri örvun og aðhald. Í 1. bekk er lögð fyrir skimun frá Námsmatsstofnun sem kallast Leið til læsis. Þetta er ný skimun sem fylgir breyttum áherslum á lestrarkennslu. Þar eru forspárþættir varðandi lestrarerfiðleika athugaðir. Bæði stafaþekking og hljóðkerfisvitund geta gefið vísbendingar. Brugðist er við niðurstöðum með því að skipta nemendum þrisvar í viku í hópa og veita þeim þjónustu sem miðar að því að þau taki framförum út frá eigin stöðu. Ef nemandi er ágætlega læs kann hann stafina og því óþarft að leggja þá inn. Ef nemandi á í vandræðum með að fylgja hraða stafainnlagnar þarf hann frekari þjálfun og vinnu með stafina og hljóðkerfisvitund.
Það eru fimm þættir sem þarf að huga að í lestrarkennslu: Umskráning, hljóðkerfisvitund og orðmyndalestur, lesfimi, lesskilningur og orðaforði. Fyrstu tveir þættirnir heyra undir tæknilega hlið lestursins; að geta breytt táknunum fyrir framan sig í orð. Lesfimi er að lesa hratt og örugglega en um leið áheyrilega með réttum áherslum.

8.6 Námsgögn
Skólinn útvegar kennslugögn og allar almennar námsbækur og eru þær endurnýttar eins og hægt er. Ef nemendur glata bókum í eigu skólans þurfa þeir að kaupa nýjar. Nemendur sjá sjálfir fyrir ritföngum og stílabókum (blöðum) og rúðustrikuðum bókum (blöðum). Hljóðbækur og hlustunarefni sem Námsgagnastofnun gefur út er nú aðeins gefið út á netinu til niðurhals. Nemendur geta með aðstoð foreldra nýtt sér bækurnar, t.d. með því að setja efnið yfir á I-pod eða á MP3 spilara. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.nams.is/.

8.7 Námsmat
Skólaárinu er skipt í tvær annir og lýkur hverri önn með námsmati í sem gefið er út á vitnisburðarblaði. Viðhafðar eru fjölbreyttar leiðir við matið hverju sinni og leitast við að meta þætti eins og virkni og vinnulag nemenda en einnig er tekið mið af verkefnaskilum og þeim könnunum sem lagðar eru fyrir á önninni. Námsmat er einn af föstum þáttum skólastarfsins, órjúfanlegt frá námi og kennslu.
Námsmat miðar að því að afla sem öruggastar vitneskju um árangur skólastarfsins og hvernig einstaka nemanda eða hópum gengur að ná settum markmiðum.
Megintilgangur námsmats er að afla upplýsinga sem hjálpa nemendum við námið, örva þá og hvetja til að leggja sig enn betur fram. Miklu máli skiptir að nemendur viti fyrirfram hvaða þættir verða metnir og hvaða kröfur skólinn gerir til þeirra.
Nemendur fá einkunnir sínar, sem eru í formi talna (heilum og hálfum), orða og/eða umsagna, á vitnisburðarblöðum í lok anna í janúar og júní.
Nemendur sem eru með greiningu um náms- og eða hegðunarraskanir er boðið upp á ýmis konar stuðning við prófatöku, svo sem að taka próf í fámennari hópi, fá lengri próftíma og aðstoð við lestur og/eða skrift. Tekið er tillit til mismunandi þroska, getu og bakgrunns nemenda við matið.

8.8 Samræmd próf
Samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði eru lögð fyrir alla nemendur í 4. og 7. bekk í september ár hvert. Nemendur 10. bekkjar taka samræmd könnunarpróf í þremur greinum, þ.e. íslensku, stærðfræði og ensku í september. Tilgangur samræmdra könnunarprófa er að athuga, eftir því sem kostur er, hvort námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð. Niðurstaðan á að vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu einstakra nemenda og hópa. Einnig er tilgangurinn að veita foreldrum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda.
Skólastjóra er heimilt að veita nemendum undanþágu frá því að taka samræmd könnunarpróf ef fyrir liggja gildar ástæður og samþykki foreldra.
Foreldrar hafa rétt á að skoða metnar prófúrlausnir barna sinna. Jafnframt hefur nemandi og foreldri/forráðamaður rétt til að skoða þau gögn sem liggja til grundvallar hvers konar skriflegum vitnisburði um námsstöðu nemandans.

8.9 Valgreinar
Kennslustundir nemenda í elstu bekkjum, 8., 9. og 10. bekk, eru 37 stundir á viku. Nám í kjarnagreinum er 31 stundir fyrir nemendur í 9. og 10. bekkjum og 33 stundir fyrir nemendur í 8. bekk.  Nemendur í 9. og 10. bekk þurfa því að velja sér viðbótargreinar, samtals 6 kennslustundir og nemendur í 8. bekk þurfa að velja sér 4 kennslustundir. Framboð námsgreina getur verið mismunandi frá ári til árs en auk þess geta nemendur 10. bekkjar valið að taka áfanga í bóklegum greinum í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þeir nemendur sem stunda nám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar geta fengið tónlistarnámið metið sem valgrein. Það sama gildir um þá nemendur sem stunda íþróttir á vegum íþróttafélaganna í Reykjanesbæ. Á vormánuðum eru valáfangar kynntir fyrir nemendum og forráðamönnum þeirra og í framhaldi velja nemendur sér námsgreinar í samráði við foreldra /forráðamenn.

8.10 Starfskynning í 10. bekk
Nemendur 10. bekkjar fara í starfskynningu á vorönn. Markmiðið er að nemendur
kynnist atvinnulífi nærsamfélagsins og þeim réttindum og skyldum sem gilda um
launþega. Kynningin dreifist á einn til tvo daga og getur bæði farið fram innan veggja
skólans og utan hans og er ýmist í formi vinnustaðaheimsókna eða fyrirlestra.Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær