4. Starfsfólk grunnskóla

4.1 Ráðning
Þegar starfsmaður er ráðinn til starfa við skólann skal liggja fyrir sakavottorð eða heimild skólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Að öðru leyti fer ráðning skólastjóra og starfsfólks eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga og nánari fyrirmælum í samþykkt um stjórn sveitarfélags eftir því sem við á.

4.2 Kennarar
Kennari sem ráðinn er til kennslu gegnir starfinu samkvæmt þeim lögum, reglum, erindisbréfi og kjarasamningi sem gilda á hverjum tíma. Honum ber að kynna sér vel það sem að starfinu lýtur. Honum ber að hafa í huga að markmið kennslunnar er ekki eingöngu að fræða nemendur heldur einnig að veita hverjum nemanda tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni, örva starfsgleði nemenda og frjóa hugsun. Kennara ber að hvetja nemendur til sjálfstæðrar hugsunar og heilbrigðra lífsviðhorfa. Kennari skal leitast við að stuðla að því að sérhver nemandi fái jákvæða og raunsæja hugmynd um sjálfan sig. Forðast ber að ala á óhóflegum metingi milli nemenda. Kennari skal leitast við að vera nemendum sínum fyrirmynd um háttvísi, stundvísi og reglusemi. Hverjum kennara er skylt að gæta algjörrar þagmælsku um einkamál nemenda og forráðamanna þeirra er hann fær vitneskju um í starfi. Sama gildir um vitnisburð nemenda og önnur trúnaðarmál skóla. Þagnarskylda helst þó látið sér af störfum. Þagnarskylda kennara nær ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt.

4.3 Umsjónarkennari
Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp skal skólastjóri velja umsjónarkennara. Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila. Umsjónarkennari fylgist einnig með skólasókn nemenda sinna og leysir úr ágreiningi sem upp kann að koma. Umsjónarkennari tryggir að upplýsingar er varða nemendur berist til þeirra kennara sem málið varða.
Umsjónarkennari hefur fastan viðtalstíma og eru foreldrar/forráðamenn hvattir til að nýta þá tíma.

4.4 Námsráðgjafi
Námsráðgjafi er trúnaðarmaður nemenda. Hann sinnir ráðgjöf við nemendur sem eiga í námstengdum og persónulegum vanda auk þess að aðstoða elstu nemendur skólans við undirbúning framhaldsnáms. Allir nemendur skólans geta leitað til námsráðgjafa hvenær sem er og milliliðalaust. Námsráðgjafi vinnur í nánu samstarfi við umsjónarkennara og foreldra eftir því sem við á, auk þess að sitja fundi nemendaverndarráðs.

4.5 Bókasafns- og upplýsingafræðingur
Bókasafns- og upplýsingafræðingur hefur umsjón með og heldur utan um allan rekstur bókasafns Myllubakkaskóla. Hann hefur umsjón með innkaupum á bókum og öðrum gögnum og gætir þess að vera innan fjárheimilda. Umsjónarmaður sér einnig um að skrá, flokka og plasta þau gögn sem berast safninu. Í daglegum rekstri sér bókasafns- og upplýsingafræðingur um útlán til nemenda og kennara og reynir eftir bestu getu að leiðbeina nemendum við að nota sér safnið bæði til náms og skemmtunar. Umsjónarmaður tekur á móti nemendahópum á safnið, veitir
aðstoð, fræðslu og kennslu svo nemendur verði sjálfbjarga við öflun heimilda. Hann aðstoðar einnig kennara og starfsfólk við að afla gagna til kennslu og fræðslu.

4.6 Tölvuumsjónarmaður
Tölvuumsjónarmaður annast umsjón með öllum tölvum skólans, heldur utan um forrit, aðstoðar starfsmenn vegna tölvusamskipta og sér um að leysa tæknileg mál sem upp koma. Þá hefur hann einnig á sinni hendi að fræða og kenna starfsmönnum á tölvur skólans.

4.7 Umsjónarmaður skóla
Umsjónarmaður skólans annast öll mál er upp koma vegna húsnæðisins, opnar skólann á morgnana og gengur frá í lok skóladags. Hann hefur daglegt eftirlit með skólabyggingunni og sér um að allt viðhald fari fram samkvæmt áætlun og samningum sem um það hafa verið gerðir. Umsjónarmaður skóla sér einnig um innkaup og ýmis viðvik. Starfsmenn skóla vinna undir stjórn umsjónarmanns.

4.8 Starfsmenn grunnskóla
Starfsmenn grunnskóla taka á móti nemendum þegar skólinn opnar dag hvern og annast gæslu á göngum og á skólalóð í frímínútum. Þeir fylgjast með því að nemendur gangi vel um skólann, aðstoða í matsal á matartíma, halda utan um óskilamuni og sjá um tilfallandi þrif og eftirlit á skólahúsnæðinu.  Starfsmenn grunnskóla vinna með nemendum með sérþarfir og aðstoða ýmist inni í bekk eða í sérrými, allt miðað við þarfir einstaklingsins hverju sinni. Þeir fylgja nemendum m.a. í sérgreinar, matsal og frímínútur. Þeir vinna náið með umsjónarkennurum að því að auka námslega og félagslega færni nemenda. Starfsmenn grunnskóla fylgja nemendum 1. og 2. bekkjar í sund. Auk þess vinna þeir önnur þau verkefni sem umsjónarmaður skóla og / eða skólastjóri felur þeim. Starfsmanni grunnskóla er skylt að gæta algjörrar þagmælsku um einkamál nemenda og forráðamanna þeirra er hann fær vitneskju um í starfi. Sama gildir um vitnisburð nemenda og önnur trúnaðarmál skóla. Þagnarskylda helst þó látið sér af störfum. Þagnarskylda nær þó ekki til atvika sem ber að tilkynna um lögum samkvæmt.

4.9 Skólaritari
Ritari sinnir almennum ritarastörfum, s.s. símavörslu, tölvubókhaldi skólans, skrásetningu skýrslna, uppsetningu bréfa og tilkynninga. Hann annast skjalavörslu af ýmsu tagi, móttöku og skráningu forfallatilkynninga, boðun forfallakennara ásamt uppsetningu og tölvuvinnslu prófa í samráði við kennara. Ritari aðstoðar við skráningu einkunna og sér um útprentun á einkunnablöðum.

 Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær