3. Stjórnun og starfssvið

3.1 Stjórnun grunnskóla
Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra málefna sem grunnskólalög segja til um og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem reglugerðir við þau og Aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Ráðuneytið skal fylgjast með að allir grunnskólar landsins eigi kost á sérfræðiþjónustu og að nemendur sem ekki geta notið kennslu með fullnægjandi hætti í almennum grunnskóla fái kennslu við hæfi. Menntamálaráðuneytið annast söfnun og dreifingu upplýsinga um skólahald og skólastarf á grunnskólastigi. Menntamálaráðherra gerir Alþingi grein fyrir framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins á þriggja ára fresti.

3.2 Fræðsluráð
Fræðsluráð fer með málefni grunnskóla samkvæmt lögum og reglugerðum um grunnskóla, sveitarstjórnarlögum og samþykktum bæjarstjórnar. Ráðið starfar skv. ákvæðum grunnskólalaga nr. 91/2008. Formaður fræðsluráðs er Baldur Guðmundsson.

3.3 Fræðsluskrifstofa
Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar fer með yfirstjórn menntamála bæjarfélagsins.
Markmið fræðsluskrifstofu er að gefa skólunum kost á sem víðtækastri sérfræði-þekkingu þannig að hún nái að veita kennslufræðilega og sálfræðilega ráðgjöf og aðstoð við umbóta- og þróunarstarf. Fræðsluskrifstofan hefur yfirumsjón með áætlanagerð og rekstri skólanna og úrvinnslu launaskýrslna fyrir skóla Reykjanesbæjar.
Fræðsluskrifstofan er opin alla virka daga frá kl. 8:30 - 15:30 og er til húsa á Skólavegi 1. Fræðslustjóri er Gylfi Jón Gylfason.

3.4 Skólastjóri 
Samkvæmt lögum er skólastjóri forstöðumaður grunnskóla, stjórnar honum og ber ábyrgð á starfi skólans og veitir honum faglega forystu. Skólastjóri sinnir daglegum rekstri, starfsmannahaldi, samskiptum við foreldra, nemendur og aðra aðila utan skólans. Skólastjóri stuðlar að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins. Skólastjóri boðar til kennarafunda svo oft sem þurfa þykir á starfstíma grunnskóla. Kennarafundi skulu sækja kennarar og aðrir sérfræðingar skólans. Skólastjóri boðar til starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir. Skólastjóri gerir tillögur til sveitarstjórnar um fyrirkomulag stjórnunar í grunnskóla með tilliti til þarfa viðkomandi skóla. Skólastjóri ákveður verksvið annarra stjórnenda skólans og skal einn þeirra vera staðgengill skólastjóra.

3.5 Aðstoðarskólastjóri
Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra í fjarveru hans. Hann hefur umsjón með bókapöntunum og annast einnig pantanir á ýmsum öðrum kennslugögnum og tækjum. Hann hefur umsjón með nemendaferðum, kennaranemum, forföllum starfsmanna og vinnu við töflugerð í samráði við skólastjóra. Aðstoðarskólastjóri sér um vörslu ýmissa gagna, kemur að skipulagningu ýmissa viðburða og kemur að aga og nemendamálum eftir því sem tilefni er til. Aðstoðarskólastjóri vinnur náið með skólastjóra.

3.6 Deildastjóri
Deildarstjóri sér um ákveðin verkefni innan skólans. Hann er millistjórnandi sem fer með mannaforráð og stýrir hluta af skólastarfi eftir nánari ákvörðun skólastjóra. Hann fundar reglulega með skólastjórnendum og kennurum. Deildarstjóri sér um skipulag á starfi stuðningsfulltrúa. Hann heldur utan um útgáfumál, skipulag prófa og kemur að undirbúningi ýmissa viðburða. Hann heldur utan um skipulag á foreldradögum og sér um myndatökur fyrir skólann og ýmislegt fleira eftir þörfum hverju sinni.

3.7 Skólaráð
Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald og tekur þátt í að marka stefnu skólans. Skólaráð fær til umsagnar skólanámskrá, árlega starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð fylgist með velferð nemenda, aðbúnaði og öryggi. Í skólaráði sitja níu einstaklingar til tveggja ára í senn, tveir fulltrúar kennara og einn fulltrúi annars starfsfólks skólans og eru þessir aðilar kosnir á starfsmannafundi, tveir fulltrúar nemenda sem eru tilnefndir af nemendaráði, tveir fulltrúar foreldra tilnefndir af foreldrafélagi skólans auk skólastjóra sem stýrir skólaráði. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til setu í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Skólastjóri skal boða til sameiginlegs fundar skólaráðs og stjórnar nemendafélags að lágmarki einu sinni á ári.


3.8 Kennarafundir
Kennarafundur er skólastjóra til ráðuneytis um innra starf grunnskóla og daglega stjórn hans. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri boða til kennarafunda en kennarar annast fundarstjórn og skrifa fundagerðir. Skólastjóri boðar til kennarafundar svo oft sem þurfa þykir. Auk þess skal boða til slíks fundar ef þriðjungur kennara skólans æskir þess. Fundartími er á miðvikudögum frá 14:45 - 16:00. Kennarar halda vinnufundi einu sinni í mánuði þar sem þeir vinna í hópum eftir því á hvaða aldursstigi eða sérgrein þeir kenna. Hvert stig hefur einn kennara sem tengilið við stjórnendur og sér sá tengiliður um að stýra umræðum og að rituð sé fundargerð.

3.9 Starfsmannafundir
Fundir með öllum starfsmönnum skólans eru haldnir einu sinni í mánuði. Skólastjóri eða aðstoðarskólastjóri boða til starfsmannafunda en starfsmenn annast fundarstjórn og skrifa fundagerðir.

Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær