16. Skólareglur og meðferð agamála

16.1 Skólareglur Myllubakkaskóla
Við virðum landslög
Við metum heilbrigt líf
Við mætum stundvíslega í skólann
Við truflum ekki í kennslustundum
Við göngum vel og snyrtilega um
Við vöndum okkur
Við sýnum háttvísi innan skóla sem utan
Við notum ekki sælgæti á skólatíma
Við virðum hlutverk hvers og eins
Við virðum reglurnar okkar
Sá sem kýs að brjóta reglur kýs jafnframt að hlíta þeim viðurlögum sem gilda

16.2 Rökstuðningur
Við virðum landslög
Allir Íslendingar virða þau lög sem sett eru á Alþingi. Sem dæmi um lög frá Alþingi eru t.d. grunnskólalögin, lög um tóbaksvarnir og lög um vernd barna og unglinga.

Við metum heilbrigt líf
Sá sem sýnir sjálfum sér ræktarsemi, hirðir líkamann, stundar holla hreyfingu, borðar hollan mat og nær góðum nætursvefni er líklegri til að ná árangri í skóla en ella. Þess vegna leggjum við áherslu á heilbrigða lífshætti og hollustu. Þar af leiðandi höfnum við reykingum, neyslu áfengis og annarra vímuefna sem valdið geta heilsutjóni og eru ávanabindandi en leggjum áherslu á holla iðju í námi og leik.

Við mætum stundvíslega í skólann
Stundvís nemandi missir ekki af neinu sem fram fer í kennslustundum. Sá sem kemur of seint þarf að vinna upp það sem hann missti af og truflar vinnu annarra. Engum líður vel sem kemur of seint. Þess vegna temjum við okkur stundvísi og mætum á réttum tíma í skólann. Nemandi fær fjarvist komi hann eftir að kennslustund er hálfnuð.

Við truflum ekki í kennslustundum
Skólinn snýst um námið sem fram fer í kennslustundum. Sá sem truflar skemmir bæði fyrir sjálfum sér og öðrum. Það er ekki hægt að leyfa einum eða fáum að skemma fyrir
hinum. Þess vegna er bannað að trufla vinnu í kennslustundum. Góður vinnufriður eykur líkurnar á betri árangri og vellíðan.

Við göngum vel og snyrtilega um
Við virðum þau verðmæti sem okkur er treyst fyrir í skólanum. Við krotum hvorki á borð né stóla eða skemmum hluti. Skólinn er vinnustaður okkar og sameign okkar allra. Það er gott að vinna á snyrtilegum vinnustað. Þess vegna göngum við vel um skólann okkar, förum úr skóm við útidyr, geymum yfirhafnir og skó í fatahengi, notum ruslafötur og sóðum ekki út.

Við vöndum okkur
Fallega og vel unnin verkefni, vinnubækur og ritgerðir veita ánægju. Þess vegna leggjum við rækt við verkefni okkar og leggjum metnað í að skila vönduðum verkefnum og úrlausnum. Við skipuleggjum vinnu okkar og förum vel með námsgögn og bækur. Við munum eftir að koma með nauðsynleg gögn í skólann og skilum heimavinnu samkvæmt vinnuáætlun hvers dags.

Við sýnum háttvísi innan skóla sem utan
Mikil slysahætta skapast þegar hlaupið er um skólann, þess vegna er bannað að hlaupa á göngunum. Slagsmál eru hættuleg og þar af leiðandi bönnuð. Enginn hefur rétt á að beita aðra ofbeldi og forðast skal hróp og köll.

Við notum ekki sælgæti á skólatíma
Neysla hvers konar sælgætis er bönnuð á skólatíma. Til sælgætis teljast m.a. gosdrykkir, tyggigúmmí, ís, frostpinnar og hálstöflur. Undanþága er háð leyfi kennara.

Við virðum hlutverk hvers og eins
Allir í skólanum hafa sitt hlutverk. Við sýnum hvert öðru virðingu og nemendum ber að fara að fyrirmælum kennara og annars starfsfólks skólans.

Við virðum reglurnar okkar
Reglur eru settar til þess að gera lífið betra, skemmtilegra og árangursríkara. Við virðum reglurnar og förum eftir þeim. Þeir sem brjóta þær viljandi eða óviljandi verða að læra þær betur og fara síðan eftir þeim.

Sá sem kýs að brjóta reglur kýs jafnframt að hlíta þeim viðurlögum sem gilda.

16.3 Kennslustofan
Kennslustofan er vinnustaður okkar allra. Þar virðum við reglurnar sem og annars staðar. Nokkrar reglur gilda sérstaklega um kennslustofuna.

Við hlýðum tilmælum kennara og sýnum tillitssemi
Í kennslustofunni er kennarinn verkstjórinn. Við hlýðum tilmælum hans og förum eftir þeim vinnureglum sem hann setur. Við sýnum hvert öðru tillitssemi.

Við truflum ekki vinnuna í kennslustofunni
Í kennslustofunni sem annars staðar erum við prúð og kurteis. Við forðumst hávaða, hróp og mas. Í kennslustofunni á að vera næði til hvers konar vinnu. Notkun farsíma er bönnuð á skólatíma.

Við réttum upp hönd þegar við þurfum að ná til kennarans
Allir nemendur hafa rétt á að ná til kennara sinna. Til þess að það gangi greiðlega fyrir sig gefur nemandi merki með því að rétta upp hönd. Kennarinn sinnir nemanda jafnskjótt og tími hans leyfir.

Við eigum öll okkar sæti í kennslustofunni
Í kennslustofum er að jafnaði föst sætaskipan. Kennarar ráða fyrirkomulaginu sem getur verið mismunandi eftir námsgreinum og viðfangsefnum. Nemendum ber að hlíta þeirri sætaskipan sem kennari ákveður.

Við göngum vel um kennslustofuna
Kennslustofan er vinnustaður okkar. Við setjum rusl í fötur, krotum hvorki á veggi né húsgögn og setjum bækur og námsgögn á sinn stað. Hreint og snyrtilegt umhverfi eykur vellíðan.

Við mætum stundvíslega að kennslustofu
Við mætum stundvíslega í kennslustundir og göngum prúðmannlega í stofu. Nemandi sem kemur of seint biður afsökunar og gætir þess að trufla ekki þá vinnu sem hafin er í kennslustofunni. Nemendur mega ekki yfirgefa kennslustund án leyfis.

Við truflum ekki nám og kennslu nemenda annarra bekkja
Í skólastofunni fer fram mikilvæg vinna. Enginn má trufla þá vinnu. Þess vegna mega nemendur hvorki trufla kennslu í eigin kennslustofu né annarra. Nemendum er bent á að nýta frímínútur sínar til ferða á salernið frekar en kennslustundir.

Við munum eftir námsbókum og gögnum
Nemendur eiga að muna eftir öllum þeim gögnum og bókum sem þeir eiga að hafa með sér í skólann. Þeir sem koma án gagna spilla eigin námi og trufla vinnu annarra. Kennarar hafa heimild til að senda nemendur heim eftir gögnum sem gleymast. Nemendur sem glata námsbókum þurfa sjálfir að kaupa nýjar.

16.4 Gangar og matsalur
Við þurfum öll að nýta ganga skólans. Þar sem annars staðar virðum við reglurnar.

Við hlaupum ekki á göngum skólans
Þeir sem hlaupa innanhúss geta valdið slysum. Þess vegna göngum við um skólann okkar en hlaupum ekki.

Við förum úr skóm í anddyri
Allir fara úr útiskóm í anddyri og skilja skófatnað og yfirhafnir eftir við kennslustofu. Nemendur geta notað inniskó ef þeir vilja. Æskilegt er að allar eigur nemenda séu merktar.

Við hrópum hvorki né köllum á göngum skólans
Á kennslutíma ber að forðast allt sem veldur truflun, þar á meðal hróp og köll.


Við virðum störf gangavarða sem og annarra starfsmanna skólans
Á hverju svæði starfa gangaverðir sem hafa það hlutverk að gæta öryggis okkar og vinna með okkur. Við virðum þá og störf þeirra og leitum til þeirra um aðstoð þegar svo ber undir.

Við sem erum inni sýnum prúðmennsku
Nemendur í 8.-10. bekk mega vera inni á göngum skólans í frímínútum. Leikir sem krefjast þess að nemendur hlaupi eða noti bolta valda slysahættu. Þess vegna förum við í slíka leiki úti á leikvellinum en ekki á göngum skólans.

Við göngum snyrtilega um ganga og mötuneyti
Skólinn er vinnustaður okkar. Við göngum vel um hann og skiljum ekki eftir rusl né annan sóðaskap, hvorki á göngum skólans, salernum né annars staðar. Við borðum nesti okkar í skólastofum eða í mötuneyti en ekki á göngum skólans.

Nesti - neysluvenjur

Við þurfum öll að borða. Um nesti og neysluvenjur gilda nokkrar reglur.

Við borðum nesti í nestistímum
Á stundaskrá er reiknað með að allir nemendur geti borðað nesti sitt á skólatíma. Í 1.-7. bekk er ætlast til að nesti sé borðað í kennslustofu. Nemendur í 8.-10. bekk hafa aðstöðu í matsal til að borða nesti sem þeir taka með sér að heiman eða kaupa í mötuneyti skólans. Við borðum nesti hvorki á leikvelli né á göngum skólans.

Við borðum hollan og góðan mat í skólanum
Nám er vinna og námsmenn þurfa á hollri næringu að halda. Nemendur geta keypt matarkort og fengið heitan mat í hádeginu. Upplýsingar um hádegismatinn er á vefnum skolamatur.is

Við borðum ekki sælgæti á skólatíma
Sælgæti og önnur sætindi draga úr löngun nemenda til að borða hollan mat. Neysla á sætindum, sælgæti og tyggigúmmí er ekki leyfð í skólanum.

Við höfnum reykingum
Reykingar eru óhollar og geta valdið tjóni á heilsu okkar. Við höfnum reykingum og vitum að landslög banna reykingar í grunnskólum og á skólalóðum. Viðurlög gegn
reykingum í skóla eða á skólalóð eru því mjög þung. Nemandi sem kýs að reykja í skóla eða á skólalóð stefnir skólagöngu sinni í tvísýnu.

16.5 Skólalóðin
Við notum skólalóðina og leikvellina. Þar virðum við reglurnar okkar sem og annars staðar.

Við förum ekki af skólalóðinni á skólatíma
Í skólanum fáum við frímínútur á milli kennslustunda. Þær nýtum við til þess að hvílast og leika okkur. Óþarfa ráp yfir umferðargötur veldur slysahættu. Ekki er ætlast til að nemendur 1.- 6. bekkjar fari út fyrir skólalóðina án leyfis.

Við leikum okkur prúðmannlega
Við förum í útileiki á skólalóðinni. Allir hafa rétt á að vera með í þeim. Við köstum ekki snjóboltum í átt að skóla, hendum ekki hlutum í fólk né öðru sem valdið getur slysum. Þegar við hlaupum þá förum við varlega og forðumst árekstra. Öllu gamni fylgir nokkur alvara.

Við hjólum ekki á skólalóðinni
Skólinn tekur ekki ábyrgð á reiðhjólum, hlaupahjólum, línuskautum og hjólabrettum. Þessi tæki geta valdið alvarlegum slysum í fjölmenni á skólalóð. Komi nemendur á línuskautum í skólann verða þeir einnig að vera með venjulegan skófatnað. Mælst er til þess við foreldra að þeir sendi nemendur ekki með þessa hluti í skólann á tímabilinu frá 15. október til 15. mars.

Við eigum leiksvæði skólans saman
Allir vilja vera með í skemmtilegum leikjum. Við reynum því að haga leikjum okkar þannig að enginn verði útundan. Við skiptumst á að nota fótboltavöllinn og allir verða að virða þá skiptingu.

Skólareglurnar gilda einnig á skólalóðinni
Allar reglur um samskipti okkar í skólanum gilda einnig á skólalóðinni. Þar virðum við hvert annað, leggjum hvorki í einelti né tökum þátt í annars konar ofbeldi. Við neytum hvorki sælgætis á skólalóðinni né innan skólans og við ítrekum að reykingar eru bannaðar með landslögum á skólalóðum grunnskóla.

16.6 Á ferðalagi
Við förum í lengri og styttri ferðir á vegum skólans. Þá gilda skólareglurnar okkar ásamt þessum einföldu góðu reglum.

Við erum fulltrúar heimila okkar og skóla
Á ferðalögum og í vettvangsferðum erum við fulltrúar skólans, heimila okkar og fjölskyldu. Við fylgjum þess vegna í hvívetna reglunum okkar hvar sem við komum fram sem nemendur skólans.

Við virðum reglur gestgjafa okkar
Þegar við erum gestir annars staðar en í skólanum virðum við reglur gestgjafa. Á sama hátt tökum við vel á móti gestum sem heimsækja skólann okkar.

Við erum kurteis og þökkum fyrir okkur
Það er kurteisi að þakka fyrir sig. Það gerum við þegar við höfum fengið góða gesti og notið gestrisni.  Tilkynna skal veikindi nemenda í upphafi hvers skóladags svo fljótt sem auðið er. Verði misbrestur á færast forföll sem óheimilar fjarvistir. Þurfi nemandi að vera inni í frímínútum verður beiðni að berast frá foreldri, skriflega eða símleiðis. Sama gildir ef nemandi þarf að fara frá á skólatíma.

Þurfi nemandi leyfi frá skóla þurfa foreldrar/forráðamenn að sækja um slíkt tímanlega. Ef um er að ræða einn til tvo daga geta þeir snúið sér til umsjónarkennara. Ef um lengri tíma er að ræða þurfa þeir að sækja um það skriflega til skólastjóra á þar til gerðu eyðublaði.

16.7 Viðurlög við brotum á reglum skólans

Við lærum reglurnar vel og ef einhver virðist ekki hafa lært þær þrátt fyrir áminningu og upprifjun er haft samband við foreldra. Einstaklingar eru mismunandi og í samráði við foreldra er bestu leiða leitað til að bæta hegðun nemandans svo að hann geti áfram stundað nám sitt sér til gagns.

1. Við brot á skólareglum fær nemandi áminningu.
2. Við ítrekað brot hefur umsjónarkennari samband við foreldra/forráðamenn og greinir frá stöðu mála, óskar liðveislu þeirra svo að slíkt komi ekki fyrir aftur.
3. Batni hegðun ekki hefur skólastjóri og/ eða aðstoðarskólastjóri ásamt námsráðgjafa samband við foreldra samkvæmt tilvísun umsjónarkennara og óskar samráðs um úrbætur.
4. Ef þessi framgangur mála skilar ekki viðunandi árangri að mati skólastjórnenda vísa þeir málinu til fræðsluskrifstofu og eða barnaverndarnefndar.
5. Við alvarleg brot, s.s. ofbeldi, þjófnað, skemmdarverk, reykingar eða neyslu áfengis, skal 3. reglu beitt.
Í skólanum njóta allir réttinda, þeim fylgja skyldur og skyldunum kröfur. Réttindi nemenda felast í því að fá að stunda nám í skóla þar sem góður vinnuandi og vinnufriður ríkir. Þessum réttindum er ætlað að tryggja árangursríkt nám og vellíðan. Allir hafa þær skyldur að virða réttindi annarra, spilla ekki vinnufriði og gera sitt besta í náminu. Þær kröfur eru gerðar til allra í skólanum að þeir fari eftir og virði skyn-samlegar og sanngjarnar skólareglur.

Reglur sem enginn fer eftir eru einskis virði.Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær