14. Tenging við önnur skólastig

14.1 Brúum bilið / samstarf leik- og grunnskóla
Í Aðalnámskrá grunnskóla 2011 er lögð áhersla á að leikskólar og grunnskólar efli tengsl sín á milli og komi á samstarfi milli kennara þessara skólastiga.

Markmið samstarfsins er:
Að stuðla að vellíðan barna við flutning milli skólastiga
Að byggja kennslu á fyrri reynslu barnanna
Að samfella skapist í námi barnanna

Á haustin hittast fulltrúar frá öllum grunnskólum og leikskólum í Reykjanesbæ. Skipt er í vinnuhópa og fundar hver skóli með sínum heimaleikskóla. Heimaleikskólar Myllubakkaskóla eru Vesturberg og Tjarnarsel. Deildarstjóri og kennarar 1. bekkja funda í september með heimaleikskólunum og er starf vetrarins skipulagt. Þau börn sem eru á öðrum leikskólum bæjarins og eru að fara í Myllubakkaskóla koma í skólaheimsókn í maí.

14.2 Tengsl grunnskóla og framhaldsskóla
Við inntöku í framhaldsskóla gilda einkunnir úr grunnskólanum. Þær eru reiknaðar bæði út frá námsárangri og ástundun. Því er afar mikilvægt að nemendur leggi sig fram allan veturinn, mæti vel í skóla, á réttum tíma, sinni námi sínu og skili þeim verkefnum sem krafist er.

Í tíunda bekk eru nemendum kynnt ýmis atriði varðandi framhaldsskólanám. Á haustönn kemur námsráðgjafi úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í heimsókn í skólann, kynnir fjölbrautakerfið, áfanga sem eru í boði, námsleiðir og inntökuskilyrði.

Allir nemendur 10.bekkjar eru boðaðir tvisvar í persónuleg viðtöl til námsráðgjafa skólans þar sem farið er í gegnum námsleiðir og möguleika á áframhaldandi námi. Allir nemendur 9.bekkjar fá eitt slíkt viðtal. Auk þess stendur þjónusta námsráðgjafa nemendum til boða eins oft og þurfa þykir.

Foreldrum er einnig velkomið að óska eftir fundi með námsráðgjafa þar sem farið er í gegnum námsleiðir og inntökuskilyrði. Mikilvægt er að foreldrar fái innsýn í fjölbrautakerfið og geti verið börnum sínum stoð þegar þau sækja um í framhaldsskóla.

Á vorönn er nemendum 9.bekkjar boðið í heimsókn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þar er þeim sýnd aðstaðan sem skólinn býr við, bókasafn, kennslustofur, bóknáms- og verk-námsstofur. Að lokum kynnir Nemendafélag FS starfsemi sína.

Það getur verið gagnlegt að fá viðtal hjá námsráðgjafa þess framhaldsskóla sem nemandi ætlar að sækja um í. Námsráðgjafinn hefur yfirsýn yfir þær brautir sem eru í boði, þau tækifæri sem bjóðast og þær reglur sem gilda um mætingar og fleira sem gagnlegt getur verið að vita.

Fyrir þá sem vilja kynna sér náms- og starfsval, námsleiðir, skóla o.fl., eru mjög miklar upplýsingar að finna á veraldarvefnum. Í því sambandi má nefna heimasíður framhaldsskólanna, vef menntamálaráðuneytisins, www.menntamalaraduneyti.is, og fræðslusetrið Iðan, www.idan.is.

14.3 Tónlistarskóli Reykjanesbæjar
Tónlistarskólinn hefur aðstöðu í Myllubakkaskóla fyrir þá nemendur sem stunda nám við skólann. Nemendur í 1. og 2. bekk Myllubakkaskóla stunda nám í forskóla Tón-listarskólans og nemendum skólans gefst kostur á að sækja tíma í hljóðfæranámi í skólanum á skólatíma. Tónlistarskólinn hefur þrjár kennslustofur til hljóðfærakennslu en auk þess er tónmenntastofa þar sem forskólakennslan fer fram. Nemendur í 9. og 10. bekk sem stunda nám við Tónlistarskólann eiga kost á því að fá það metið sem valgrein.


Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær