12. Fastir liðir í skólastarfi

12.1 Norræna skólahlaupið
Norræna skólahlaupið fer fram ár hvert í lok september. Yngstu nemendurnir hlaupa/ganga í næsta nágrenni skólans en 5.-10. bekkur hleypur hring kringum íþróttasvæðið sem er 2,5 km. Nemendur ráða hvort þau hlaupa 2,5 - 5 - 7,5 eða 10 km. Allir nemendur fá viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.

12.2 Stærðfræðidagurinn
Flötur, samtök stærðfræðikennara, stendur fyrir degi stærðfræðinnar fyrsta föstudag febrúar ár hvert. Þá er sjónum beint að ýmsum þeim þáttum stærðfræðinnar sem nemendur eru ekki að takast á við dagsdaglega.

12.3 Dagur íslenskrar tungu
Árið 1995 samþykkti ríkisstjórnin tillögu menntamálaráðherra um að 16. nóvember ár hvert, fæðingardag Jónasar Hallgrímssonar, verði Dagur íslenskrar tungu. Markmiðið er að auka veg móðurmálsins á allan hátt. Nemendur skólans safnast þá saman á sal og hlýða á dagskrá sem flutt er af nemendum sjálfum. Umsjónakennari skipuleggur atriði fyrir sinn bekk. Deildastjóri heldur svo utan um dagskrána í heild sinni.

12.4 Stóra upplestrarkeppnin
Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk hefst á Degi íslenskrar tungu og lýkur með sameiginlegri lokahátíð í DUUS húsum í mars. Markmiðið er að vekja athygli og áhuga á vönduðum upplestri og framburði. Fulltrúar skólans eru valdir í keppni sem fer fram á sal skólans. Áður hefur farið fram undirbúningur og keppni innan sjöunda bekkjar undir umsjón íslenskukennara.

12.5 Þemadagar - Opinn dagur
Undanfarna vetur hafa þemadagar verið fastur liður í skólastarfinu. Þemadagarnir hafa verið tveir en í kjölfarið hefur fylgt Opinn dagur þar sem foreldrum, ömmum og öfum hefur verið boðið í skólann til að skoða afrakstur þemadaganna og njóta veitinga sem boðið er uppá. Hvaða þema er notað hefur verið mismunandi og sama má segja um skipulag þessara daga. Sú hefð hefur þó skapast að stokka upp í nemendahópnum ýmist innan stiganna eða jafnvel mynda hópa sem spanna allan aldur innan skólans. Undirbúningur og utan-umhald er í höndum kennarateymis sem skipað var á haustdögum. Opinn dagur er skertur dagur.

12.6 Aðventustund á sal
Aðventustund er í desember og koma þá nemendur skólans saman á sal. Skipulag dagskrár hverju sinni er í höndum umsjónarkennara en utanumhald er deildarstjóra. Dagskráin tekur um eina kennslustund hjá hverju stigi.

12.7 Piparkökur á aðventu
Á aðventu baka nemendur piparkökur undir umsjón heimilisfræðikennara. Piparkökurnar verða síðan bornar fram á litlu jólunum ásamt kakói.

12.8 Litlu jól
Allir nemendur mæta í skólann kl. 9:00. Hátíðin, sem er skipulögð af umsjónarkennara ásamt nemendum, hefst í heimastofum nemenda þar sem jólaguðspjallið er lesið, spilað á hljóðfæri, farið í leiki, lesin jólasaga, skipst á pökkum og fleira gert til skemmtunar. Nemendum verður boðið upp á heitt kakó og pipakökur. 1. 3. 5. 7. og 9. bekkur fara í salinn kl. 10:00 og dansa kringum jólatréið í 30 mínútur en fara svo aftur í stofur til kl. 11:00. 2. 4. 6. 8. og 10. bekkur fara í salinn kl. 10:30 og dansa kringum jólatréð en hátíðinni lýkur kl.11:00.

12.9 Öskudagur
Á öskudaginn er breytt til og nemendur mæta í búningum í tilefni dagsins. Hefðbundinni kennslu er ýtt til hliðar og dagskráin samanstendur af glensi og gamni. Nemendur fara í leiki, s.s. kapphlaup, ratleik, leysa þrautir, dansa og margt fleira. Skóladagurinn er frá kl. 8:10 - 11:10. Matur er í boði fyrir þá nemendur sem eru í áskrift.

12.10 Íþróttadagur
Íþróttadagur Myllubakkaskóla er í maí. Mikið er lagt uppúr hreyfingu og samvinnu þennan dag. Nemendur mæta í íþróttafatnaði og taka þátt í hinum ýmsu þrautum. Skóladagurinn er frá 8:10-11:10. Að lokinni keppni er grillað. Nemendur hafa með sér drykk, pylsur og pylsubrauð en boðið er upp á tómatsósu og sinnep. Undirbúningur og skipulag íþróttadagsins er hverju sinni í höndum kennarateymis.

12.11 Sumarlestur
Myllubakkaskóli er í samstarfi við Bókasafn Reykjanesbæjar um sumarlestur nemenda. Nemendur fá kvittunarblað í skólanum að vori sem þau geta svo notað í sumarlestri bókasafnsins. Nemendur skila svo kvittunarblaðinu að hausti og fá viðurkenningu fyrir.

12.12 Skólabúðir og ungmenna og tómstundabúðir
Sjöundi bekkur fer í Skólabúðir að Reykjaskóla í Hrútafirði og 9. bekkur í ungmenna og tómstundabúðir að Laugum í Sælingsdal. Ferðirnar er ákveðnar hverju sinni í samráði við foreldra. Í búðunum er lögð áhersla á  aukna samstöðu og samvinnu milli nemenda og kennara, efla sjálfstæði nemenda og að nemendur kynnist nýju umhverfi og fáist við áður óþekkt viðfangsefni.

12.13 Vettvangsferðir
3. bekkur: Heimsókn í Mjólkursamsöluna
4. bekkur: Byggðasafn Reykjanesbæjar
5. bekkur: Skoða Íslending - Snorrastaðatjarnir
7. bekkur: Heimsókn að Gljúfrasteini
9. bekkur: Ferð út á Garðskaga og í Fræðasetrið í Sandgerði
10. bekkur: Alþingi heimsótt

12.14 Vorferðir nemenda
Nokkuð föst hefð er komin á þær ferðir sem farnar eru með nemendur á vorönn.
Við höldum okkur að mestu við Suðvesturhornið og nánasta umhverfi. Tveir árgangar fara saman í hverja ferð.

1. og 2. bekkur
A. Nemendur 1. og 2. bekkjar fara í Sólbrekkur.
B. Nemendur 1. og 2. bekkjar fara út á Garðskaga og Stafnes.

3. og 4. bekkur
A. Nemendur 3. og 4. bekkjar fara í Húsdýragarðinn í Laugardal.
B. Nemendur 3. og 4. bekkjar fara ferð um Reykjanes og koma við í Sandvík.

5. og 6. bekkur
A. Nemendur 5. og 6. bekkjar fara í vorferð um Heiðmörk og Reykjavík þar sem farið verður í Árbæjarsundlaug.
B. Nemendur 5. og 6. bekkjar fara í vorferð austur að Þingvöllum og í sund á Selfossi.

7. og 8. bekkur
Nemendur 7. og 8. bekkjar fara í vorferð um Stór - Reykjavíkursvæðið þar sem farið er á söfn, í keilu, sund og fleira.

9. bekkur
Nemendur 9. bekkjar fara að Nesjavöllum og síðan að Stokkseyri þar sem nemendum gefst kostur á að fara á kajak.

10. bekkur
Nemendur 10. bekkja fara í fjögurra daga ævintýraferð austur í Öræfasveit. Á leiðinni austur leggja þeir lykkju á leið sína og fara í flúðasiglingu, grill og sund. Gist er í félagsheimilinu Hofgarði og þaðan farið í nokkrar áhugaverðar ferðir, meðal annars í klettaklifur og sig, siglingu á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og ekið í dráttarvélarkerru út í Ingólfshöfða í göngu, fræðslu og fuglaskoðun. Nemendur afla tekna í ferðasjóð með því að selja jólamerkispjöld, gjafapappír, kort, kaffi og páskaegg.


Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær