10. Aðbúnaður og öryggi

10.1 Skólabókasafn
Bókasafn Myllubakkaskóla er í stjórnunarálmu skólans. Starfsemi þess felst aðallega í útlánum, upplýsingaþjónustu og kennslu í upplýsingamennt á bókasafni. Bókakostur safnsins er um 16.000 bækur og er safnkosturinn mjög fjölbreyttur. Að auki eru líka til á safninu ýmiss önnur gögn, s.s. myndbönd, dvd myndir, geisladiskar, snældur, hljóðbækur, margmiðlunardiskar og spil.
Safnkostur er skráður í tölvukerfið Metrabók en vinna við að skrá safnkostinn í Gegni er hafin.
Bókasafnið er opið mánudaga til föstudaga frá kl. 8:10 - 14:00 fyrir útlán og aðra þjónustu. Starfsmenn og nemendur eru velkomnir á safnið á þessum tíma. Einnig bjóðum við foreldra velkomna til að kynnast starfseminni. Nemendur og starfsmenn skólans geta fengið bækur að láni. Útlánstíminn er tvær vikur
Á safninu eru tvær nettengdar tölvur. Nemendur hafa aðgang að þeim að fengnu leyfi. Þess ber þó að geta að þær eru eingöngu ætlaðar fyrir heimildaleit og aðra verkefnavinnu er tengist náminu.
Nemendur í 3. - 5. bekk koma vikulega í kennslutíma í upplýsingamennt á bókasafnið. 1. og 2. bekkur kemur einnig í kennslu á safnið en ekki eins reglulega. Nemendur eru þjálfaðir í upplýsingaleit úr bókum og öðrum miðlum. Einnig er lögð áhersla á bókmenntir, sögustundir, lestur og lestrarhvetjandi verkefni. Markmiðið er að gera nemendur færa um að leita sér þekkingar á eigin spýtur og nota hana í námi jafnt sem daglegu lífi. Þannig eru nemendur þjálfaðir í sjálfstæðum vinnubrögðum en um leið geta þeir fengið útrás fyrir forvitni sína og sköpunargleði með aukinni kunnáttu. Einnig á það að auka áhuga nemenda á lestri og bókmenntum.

10.2 Tækjabúnaður
Á sal skólans og í kennslustofum 6. - 10. bekkja eru skjávarpar, einnig í myndmenntastofu, tölvustofu og fjölþjóðadeild. Í kennslustofum eru tölvur, myndvarpar og útvarpstæki. Á vinnustofum kennara eru tölvur, ljósritunarvélar, gormavél, merkivél, vél til að plasta svo og prentarar. Upptökuvél og myndavélar eru í umsjón aðstoðarskólastjóra. Á bókasafni skólans eru tölvur sem nemendur hafa aðgang að og í tölvuveri skólans eru 24 nettengdar tölvur.

10.3 Frímínútur
Nemendur í 1. - 7. bekk fara út í frímínútum. Kennarar fylgja nemendum sínum af gangi áleiðis að útidyrum. Ekki er leyfilegt að fara af skólalóðinni á skólatíma nema með leyfi kennara. Gæsla í frímínútum úti sem inni er í höndum starfsmanna skólans og skólavina sem eru nemendur úr 10. bekk. Nemendur í 8.-10. bekk geta verið á sal í frímínútum og á bókasafni.
Leikföng til útileikja svo sem boltar og bönd eru í vörslu umsjónarmanns / starfsmanna skóla.

10.4 Tryggingar
Öll skólabörn eru tryggð hjá Tryggingarmiðstöðinni (TM) (líf- örorku og slysatryggingar) á meðan þau eru á ábyrgð skólans. Gera skal skýrslu um öll óhöpp sem verða á skólatíma. Foreldrum er bent á að reikningar sem verða til vegna áverka/slysa sem börn verða fyrir skulu sendir TM sem sér um að greiða viðkomandi sjúkrakostnað enda sé skýrslan í þeirra höndum.

10.5 Ábyrgð á persónulegum eigum nemenda
Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum eigum nemenda og er því mælst til að nemendur séu ekki með peninga eða verðmæta muni með sér í skólanum. Allar eigur nemenda, s.s. fatnaður og töskur þurfa að vera vel merktar.

10.6 Brunavarnir / rýmingaráætlun
 Skólinn er þátttakandi í árlegum brunavarnardegi sem haldinn er reglulega fyrir yngri nemendur rétt fyrir jól ár hvert. Lionessur færa nemendum í 3. bekk litabækur þar sem fjallað er um brunavarnir á heimilinu. Í för með Lionessum eru fulltrúar frá Brunavörnum Suðurnesja og fræða þeir nemendur um efnið. Þá hafa verið haldnar sérstakar brunaæfingar þar sem húsrýming er æfð. Nemendur ásamt kennurum fara út þá leið sem öruggust er hverju sinni og safnast saman á ákveðnum stað á lóð skólans. Þar er tekið manntal og upplýsingum komið til skólastjóra. Áætlað er að slík æfing sé árlega og nemendum og starfsfólki komið að óvörum með æfinguna.

10.7 Skólalóð
Lóð Myllubakkaskóla er fyrir framan og afan skólann. Fyrir framan skólann eru tvær körfuboltagrindur, jafnvægisslá og fimleikará. Þetta svæði er ætlað fyrir eldri nemendur. Á lóðinni fyrir aftan skólann eru fjórar körfuboltagrindur, jafnvægisslá, fjórar rólur, tvö vegasölt, rennibraut og klifurgrind. Öll leiktækin eru fest niður með steyptum festingum og gúmmímottur undir leiktækjunum. Á lóðinni er einnig upphitaður knattspyrnuvöllur með gervigrasi. Girðing er umhverfis skólalóðina alla. Öryggismyndavélar eru á hluta lóðarinnar.

10.8 Viðbrögð við slysum og áföllum
Verði barn fyrir slysi eða áfalli á skólatíma er það tafarlaust fært til meðhöndlunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Jafnframt er haft samband við foreldra. Nauðsynlegt er að foreldrar gefi skóla upp öll þau símanúmer sem hægt er að hringja í ef upp koma bráðatilfelli. Sjúkrakassar eru á kennaragangi, hjá húsverði og í verk- og listgreinastofum.

10.9 Umferðaröryggi
Lögreglan heimsækir alla bekki skólans á hverjum vetri. Löreglan ræðir við nemendur um ýmis mál, s.s. umferðarreglur, endurskinsmerki, útivistartíma, lög og reglur og hver þau mál önnur sem þörf krefur hverju sinni. Lögreglan ræðir einnig við nemendur um umferðina og hvernig farið skuli að við mismunandi ferðamáta í skóla. Nemendur koma ýmist gangandi, hjólandi, í farartæki foreldra eða í strætisvagni. Í öllum tilvikum verður að gæta ítrustu varkárni.

10.10 Öryggi og heilbrigði á vinnustað
Innan skólans eru starfandi tveir öryggistrúnaðarmenn og öryggisvörður sem koma ábendingum frá kennurum og öðru starfsfólki til skólayfirvalda um það sem betur má fara varðandi aðbúnað og öryggi á vinnustað. Skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er til staðar.
Öryggisvörður er Stefán Jónsson
Öryggistrúnaðarmenn eru þau Ingólfur H. Matthíasson og Unnur Guðmundsdóttir.


Til baka í efnisyfirlit

Viðburðadagatal

« janúar 2019 »
M Þ M F F L S
 123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
28293031   
       
Mentor Reykjanesbær